146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég var að ganga inn í daginn þegar ég heyrði þessar ömurlegu fréttir. Ég verð að viðurkenna að það tók mig langan tíma að átta mig á því hve ömurlegur atburður átti sér stað í Englandi í gærkvöldi. Nákomin vinaþjóð okkar verður fyrir þessari ömurlegu árás sem er ódæði gegn börnum og ungmennum.

Ég vil þakka þér, virðulegi forseti, fyrir að senda samúðarkveðju þingsins til bresku þjóðarinnar og breska þingsins.

Á staðnum var mikill fjöldi barna og ungmenna, jafnvel íslensk börn í fylgd foreldra sinna. Við heyrðum viðtöl við þau í útvarpinu í morgun. Hér er ráðist gegn okkar helgustu véum, því sem stendur næst hjarta hverrar fjölskyldu, börnunum okkar, börnum vina okkar. Það eru sorglegir hvatar á bak við svona ódæði gegn ungmennum.

Eins og hér hefur komið fram eru Íslendingar friðsöm þjóð í friðsömu landi; við teljum að ofbeldi sé ekki lausnin. Við búum við frið og við eigum að þakka fyrir það að í þessu landi skuli ríkja friður og þakka fyrir það að búa við góð kjör. Það kemur meðal annars fram í því að hér er eitt besta heilbrigðiskerfi heimsins og þó okkur finnist að við þurfum að laga það, og við ætlum að gera það, eigum við líka að vera þakklát fyrir það sem við búum við.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þér fyrir samúðina sem þú sendir fyrir hönd þingmanna og hefur sýnt vinaþjóð okkar. Hugur okkar er með þeim sem syrgja.