146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir votta bresku þjóðinni samúð vegna hinna hörmulegu atburða í Manchester í nótt.

Ég vil ræða kjör aldraðra og samspil kjara þeirra og þess að greiða í lífeyrissjóð. Það var nú meiningin að fólk myndi njóta þess með eðlilegum hætti að greiða í lífeyrissjóð gegnum ævina, en því miður hafa hinar miklu tengingar verið þannig að fólk hefur ekki notið sem skyldi greiðslna úr lífeyrissjóðum. Menn vita það varðandi hjúkrunarheimili að þar er fólk mjög álíka sett, fólk sem hefur aldrei greitt í lífeyrissjóð og það sem hefur greitt í lífeyrissjóð. Í dag eru enn þá um 50% þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum með engar tekjur úr lífeyrissjóðum. Þeir þurfa ekki að greiða með sér og ekki er það þannig að það sé ekki eðlilegt að standa með þeim sem minnst hafa, en það þarf auðvitað líka að horfa til þess að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð í gegnum árin sjái þess stað og njóti þess þegar þeir eru komnir á elliár og þurfa að taka út sinn lífeyri, það sé ekki þannig að menn séu næstum því jafnsettir hvort sem þeir hafa greitt í lífeyrissjóð eða ekki þegar tekið er af þeim fyrir veru á hjúkrunarheimilum og þeir fá vasapeninga.

Í lögum um almannatryggingar frá því í fyrra var skipaður starfshópur til að útfæra tilraunaverkefni varðandi hjúkrunarheimili og nýtt fyrirkomulag í greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Vissulega bindur maður vonir við að það breyti einhverju, en við verðum að fara að bæta kjör þess hóps sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum í dag, en það virðist alltaf vera að þessi hópur standi uppi (Forseti hringir.) með miklar skerðingar og verði alltaf afgangsstærð þegar fjármunum ríkisins er ráðstafað.