146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða að bregðast örstutt við ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan. Hann tók ákveðið forskot á sæluna varðandi umræður um fjármálaáætlun sem við munum eiga hér í dag. Það var ekki annað á honum að heyra en honum hefði sést yfir, eins og reyndar blaðamanni Morgunblaðsins líka, að til umræðu í dag er m.a. nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar þar sem lagt er til að fjármálaáætlunin verði samþykkt og ekki ástæða til að ætla að neitt hik sé á mönnum í því sambandi. Meiri hluti fjárlaganefndar komst að niðurstöðu um að leggja til að áætlunin verði samþykkt óbreytt, en lætur í ljós ákveðin sjónarmið sem eru þá veganesti inn í frekari vinnu við útfærslu þeirra atriða sem í fjármálaáætlun eru.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir eru ákvarðanir um einstök útgjaldaverkefni og tekjuöflunarverkefni ekki tekin endanlega í fjármálaáætlun heldur í fjárlögum hvers árs í skattalegum eða skattalagabreytingum sem fá sérstaka meðferð í þinginu. Um þau atriði sem umdeild hafa verið í fjármálaáætluninni er fjallað á yfirvegaðan og vandaðan hátt í nefndaráliti meiri hlutans og hv. formaður fjárlaganefndar mun ábyggilega gera grein fyrir því á eftir. (SJS: Ekkert að marka Moggann?)

Þar virðist vera um misskilning að ræða hjá blaðamanni Morgunblaðsins hvað þetta varðar og segi ég þetta (Gripið fram í.) vegna þess að þarna liggur fyrir (Gripið fram í.) niðurstaða og afstaða sem öllum á að vera kunnug. Hins vegar veit ég að ef ríkisstjórnin (Forseti hringir.) þarf á því að halda, það er nú ekki komið að því enn þá, að fá ráðgjöf í því hvernig á að stýra sundruðum ríkisstjórnum þá er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sérfræðingur á því sviði. [Hlátrasköll í þingsal.]