146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur gagnrýnt uppsetningu fjármálaáætlunar og sagt að hún sé ógagnsæ og að bæta þurfi það, tekur undir ábendingar fjármálaráðs hvað það varðar. En ég verð að segja að tillögur og ábendingar hv. fjárlaganefndar eru mjög ógagnsæjar, að minnsta kosti átta ég mig ekki á þeim. Jafnvel þótt hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, hafi reynt að útskýra þær aðeins hér áðan skil ég þær ekki enn. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort meiri hlutinn sé að leggja til að í staðinn fyrir virðisaukaskattsbreytinguna komi komugjöld eða eru þingmaðurinn og meiri hlutinn að leggja til að 2019 verði bæði hár virðisaukaskattur, eða virðisaukaskattur í almennu þrepi, og komugjöld? Ég vil biðja hv. þingmann að útskýra þetta fyrir mér því að ég skil ekki hvað verið er að leggja til. (Forseti hringir.) Geta komugjöld í raun komið í staðinn fyrir virðisaukaskattinn til að brúa það bil, sem eru þá 17 milljarðar á árinu 2019?