146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get lítið hjálpað upp á að erfitt sé að skilja okkur, annað en að við teljum okkur hafa rammað þetta inn eins skýrt og mögulega er hægt. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um þá gagnrýni sem var á framsetningu fjármálaáætlunar. Við höfum svo sem í fjárlaganefndinni talað ágætlega einum rómi.

Varðandi spurningar um hversu óskýrar hugmyndir eða ábendingar meiri hlutans séu skal ég reyna að greiða úr því eftir bestu getu. Við segjum að það sé óheppilegt að leggja á virðisaukaskatt á miðju rekstrarári. Við erum ekki að leggja til að fallið verði frá tekjuöfluninni sem slíkri. Við segjum: Við ætlum að ráðstafa þetta miklum fjármunum og taka svo og svo mikla fjármuni og þess vegna tökum við ekki eitt spil út úr stokknum og skiljum fjármálaráðherrann eftir aleinan á ísjaka og án þess að hafa tekjurnar til að efna það sem við segjum honum síðan í hinu orðinu að framkvæma. Komugjaldahugmyndin getur alveg komið að hluta til á móti þeim tekjum sem verður þá mögulega fallið frá að sækja með þeim hætti.