146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég velti því ekki hálfa mínútu fyrir mér hvernig stjórnarandstöðunni líði með hvort ríkisstjórnin sé fallin eða ekki. Bara alls ekki. Ég hef annað við tíma minn að gera en það.

Við erum að leggja til í okkar afgreiðslu, meiri hluti fjárlaganefndar, að ákveðnar greiningar þurfi að fara fram áður en við tökum ákvarðanir. Við erum að segja að það sé óheppilegt að leggja virðisaukaskatt á á miðju tímabili. Við erum að leggja til að umræða verði tekin um aðra tekjustofna eins og komugjöld. Við erum ekki þess umkomin að slá hér um okkur og segja: Takið þetta, gerið þetta og svo á þetta að vera svona. Alls ekki. Við viljum vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um fjármálaáætlun, og það er einmitt það sem við skulum meta við þetta nýja verklag að við séum að ræða um opinber fjármál til lengri tíma með þeim hætti sem við gerum, að nú koma fleiri að, við tökum lengri tíma til umræðu og reynum að endurspegla fleiri sjónarmið. Það er það sem við erum að gera. Takið þessa áætlun ykkar til nánari rýni. Það má vel vera, ég ætla ekkert að útiloka það, að það verði nákvæmlega þessi niðurstaða sem (Forseti hringir.) kom fram í þingmálinu í upphafi sem verði síðan raunin. En þá höfum við alla vega tekið þessa umræðu og gert ákveðnar greiningar.