146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í að dæma um hvort tölur séu réttar eða rangar sem hv. þingmaður hefur undir höndum eða hvort hann reisir þær á sama grunni og við birtum okkur töflur. Ég hef það ekki við höndina. En ég bið hv. þingmann því að ég veit að hann er mjög athugull maður og vinnur fyrirmyndarstarf í fjárlaganefnd, vil ég segja, að skoða þróun útgjalda til heilbrigðismála í samhengi við aðra þætti sem snerta heilbrigðismálin, eins og lyfjakaup, umönnun aldraðra og slíkt, allt sem leysir fráflæðivanda spítala. Við getum aldrei tekið sjúkrahúsþjónustuna eina og sér og sagt: Það er nákvæmlega ekkert verið að gera, heldur verðum við að horfa á fleiri málefnasvið og málaflokka ef við ætlum að dæma um það.