146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem hér stendur verður að játa að hann hefur hvorki lesið FréttablaðiðMorgunblaðið í dag. (SJS: Hvað er þetta?) Þannig er það bara í sveitinni, og ég veit að hv. þingmaður hefur ákveðinn skilning á því, maður kemst ekki alveg yfir það með morgunverkunum. Við tökum undir ýmsar áhyggjur fjármálaráðs. Ég held að það væri fullkomlega óeðlilegt af meiri hluta fjárlaganefndar að koma fram og segja: Hér er allt í himnalagi og engar áhyggjur þarf að hafa, bara alls ekki. Þau óveðursský sem eru að hrannast upp núna, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið manna fremstur í að benda á, eins og gengi krónunnar og mögulegar hörmulegar afleiðingar þess, þau eru öll við sjóndeildarhringinn. En við teljum okkur hins vegar ekki þess umkomin að hafna þeim forsendum sem lagðar eru undir rammana sem eru birtir í þessari þingsályktun. Fjármálaráðið tekur undir. Það er alltaf verið að segja að við séum á toppi efnahagssveiflu og alltaf hækkar toppurinn. (Forseti hringir.) Við erum með eitthvert lengsta hagvaxtarskeið undir í þessari fjármálaáætlun. Það mun einhvern tíma taka enda. (Forseti hringir.) Við erum hins vegar að fleyta okkur áfram á því, eins og hv. þingmaður veit, að það verði hér áfram hagvöxtur. Þannig þurfum við að ganga frá þessu máli, (Forseti hringir.) eins og öðrum málum er við getum haft áhrif á, hagvöxt og þróun efnahagsmála, með fullkomlega ábyrgum (Forseti hringir.) hætti svo að við fáum ekki það bakslag (Forseti hringir.) sem við höfum því miður oft í gegnum tíðina þurft að upplifa.