146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek svo sannarlega undir það. Við fórum á kynningu þegar skýrsla McKinsey var kynnt um stöðu Landspítalans. Það er alveg ljóst að við verðum að styrkja háskólasjúkrahúsið okkar til mikilla muna til þess að laða læknana inn á sjúkrahúsið í fullt starf því eins og komið hefur fram er það einn helsti veikleiki spítalans hversu fáir læknar eru þar í fullu starfi en stunda mikinn einkapraxís. Ég held að það sé eitt af því sem þurfi að horfa til. Það þýðir auðvitað ekkert annað en minna fjármagn í sérgreinakostnaðinn og meira fjármagn til sjúkrahússins. Ég myndi vilja sjá það. Þó að það sé gott og gilt að hafa samninga við sérgreinalækna í gegnum sjúkratryggingar þá sjáum við líka hvernig sá hluti hefur vaxið og fylgt verðlagi á meðan spítalarnir hafa ekki búið við sams konar aðstöðu.

Ég held að við verðum að taka þetta gilt eins og þá umræðu sem við höfum átt hér um að útvista þjónustu og búa jafnvel til einkasjúkrahús, sem þýðir að bestu bitarnir eru teknir og síðan þarf Landspítalinn eða eftir atvikum Sjúkrahúsið á Akureyri eða hvað það er að vera alltaf á bakvaktinni. Það er auðvitað ekki ásættanlegt. Eins og ég sagði í ræðu minni þá liggur það fyrir og maður skilur ekki þegar verið er að tala um að Landspítalinn sé jafnvel ekki að segja satt og rétt frá þegar hann birtir sínar tölur. Það hefur komið fram í ársreikningum að spítalinn er rekinn fyrir svipað fé og í upphafi aldarinnar. Það hlýtur auðvitað að teljast algjört kraftaverk að hægt sé að gera það, fyrir utan fjölda sjúklinga. Það helst auðvitað í hendur við hjúkrunarheimilin að Landspítalanum er í rauninni búin sú staða að þurfa að (Forseti hringir.) vera með alla þessa einstaklinga inni af því að ekki er brugðist við annars staðar í kerfinu nema í einkaátt.