146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það verður ekki sagt annað en að Framsóknarflokkurinn sé kominn undan álögum hægri aflanna í landinu og það er gott á þessum fallega sumardegi.

Hv. þingmaður nefndi aðhaldskröfuna upp á 1,5% af fjárlögum og telur að hún sé of þröng. Við höfum áhyggjur af því að menn séu búnir að skorða sig af í allt of stífan ramma og að ekkert sé hægt að hreyfa sig. Nú erum við kannski á toppi hagsveiflu og við þær aðstæður virðist ekkert vera hægt að gera til að byggja upp innviði. Hvernig verður þá ástandið miðað við að búið sé að setja það mikið af tekjum í fasta tekjustofna hjá ríkinu þegar við förum aftur eitthvað niður á við, sem reikna má með í eðlilegu árferði? (Forseti hringir.) Hvernig eigum við þá að geta haldið við innviðum samfélagsins ef ekki er hægt að gera það við þessar aðstæður?