146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að þingmaður fjallaði í ræðu sinni um hugleiðingar okkar um að opna umræðu um framtíðarfyrirkomulag á flugstöðinni. Þá langar mig, með leyfi forseta, að lesa eftirfarandi texta:

„Á næstu árum er gert ráð fyrir að framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll muni kosta á bilinu 70 til 90 milljarða króna og að flugvöllurinn geti tekið við um 14 milljónum farþega eftir það ef álag dreifist á sama hátt og það gerist nú.“

Síðan segir:

„Þróun mála á flugvöllum í Evrópu er með þeim hætti að fleiri og fleiri flugvellir fara í blandað eignarhald einkaaðila og ríkisaðila og um 80% af öllum flugfarþegum í dag koma frá flugvöllum eða fara um flugvelli sem eru í slíku blönduðu eignarhaldi.“

Þessi texti sem ég vitnaði í er með fjármálaáætlun sem samþykkt var síðastliðið vor. Hvað hefur breyst í hugarskoti Framsóknarflokksins um viðhorf til blandaðs eignarhalds á flugvallarmannvirkjum?