146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022, frá 3. minni hluta fjárlaganefndar. Í nefndarálitinu er gagnrýnt harðlega að meiri hluti fjárlaganefndar skilur eftir a.m.k. 8,5 milljarða kr. gat í rekstri ríkisins árið 2018 við afgreiðslu sína á fjármálaáætlun og óvíst er um 17 milljarða 2019 og út áætlunartímann vegna þess að fallið er frá fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðamenn sem taka átti gildi í júlí 2018. Ekki eru lagðar til tekjur eða sagt til um hvar eigi að skera niður á móti minni tekjum. Þetta er óábyrgt.

Nauðsynlegt er að halda sig við markmið um niðurgreiðslu skulda en ekki gera eins og meiri hlutinn sem lofar ófjármögnuðum útgjöldum. Það dregur úr trausti og setur markmið um afgang af fjárlögum í fullkomið uppnám og ógnar stöðugleika. Aukinn þrýstingur myndast á hækkun vaxta og kynt er undir óstöðugleika á vinnumarkaði, allt vegna þess að fjárlaganefnd og hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar, sem styðja ríkisstjórnina, og hæstv. ríkisstjórn ráða ekki við að afla ríkissjóði tekna þegar það hefur sjaldan verið auðveldara. Þeir virðast trúa í blindni á þá kennisetningu frjálshyggjunnar að opinber afskipti og skattheimta geti ekki verið af hinu góða.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafna með öllu þessum óábyrgu vinnubrögðum meiri hlutans við afgreiðslu á fjármálaáætluninni. Það að umgangast áætlunina svona er í algjörri andstöðu við áform um betri vinnubrögð við fjárlagagerð og markmið nýrra laga um opinber fjármál um góða hagstjórn og styrka og ábyrga stjórn opinberra fjármála.

Meiri hlutinn segist í áliti sínu vilja skoða kosti og galla komugjalda og eykur með því enn óvissu í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar og setur fjármögnun fjármálaáætlunarinnar á gildistíma hennar í uppnám. Þessar fyrirætlanir og spennitreyja fjármálastefnunnar sem kveður á um tiltekinn afgang af ríkisrekstrinum gera það að verkum að niðurskurðarhnífurinn hangir yfir almannaþjónustunni og hann mun falla við minnsta hökt í efnahagslífinu ef núverandi hæstv. ríkisstjórn fær að halda völdum.

Ófjármögnuð útgjöld meiri hlutans verða enn óheppilegri þegar þau eru sett í samhengi við helstu athugasemdir fjármálaráðs og annarra um að sýna þurfi meiri ábyrgð í góðærinu. Skila þurfi öruggum afgangi af fjárlögum, meiri frekar en minni, og að lækkun efra þreps virðisaukaskattsins í miðri uppsveiflu sé óheppileg og auki á þensluna. Þessi 13,5 milljarða kr. árlega skattalækkun er aðgerð sem frekar ætti að fara í þegar skóinn kreppir en ekki þegar eitt af helstu verkefnum hagstjórnarinnar ætti að vera að halda aftur af einkaneyslu. Og hún er fráleit ráðstöfun þegar horft er til allra þeirra samfélagslegu mikilvægu verkefna sem eru ófjármögnuð og var lofað að ráðast í að loknum kosningum. Um þau mun ég fjalla betur síðar í nefndarálitinu og ræði einnig breytingartillögur þær sem 3. minni hluti leggur til. Breytingartillögurnar lúta einmitt að þeim málum sem almenningur hefur kallað eftir að verði lögð meiri áhersla á og raðar framar í forgangsröðuninni þegar ríkisútgjöldum er útdeilt en það eru líka málefni sem stjórnarmeirihlutinn hunsar.

Í áliti meiri hlutans er rætt um að selja eignir á Keflavíkurflugvelli til að fjármagna samgöngubætur. 3. minni hluti leggst alfarið gegn sölu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli sem er hliðið inn og út úr landinu. Mikilvægt er að því sé stjórnað af opinberum aðilum, enda yrði um einokunarstarfsemi að ræða sem afar óskynsamlegt er að gangi kaupum og sölum. Fráleitt er að gera því skóna að sú sala sé eina leiðin til þess að fjármagna samgöngubætur. Þvert á móti er opinber rekstur flugstöðvarinnar góð leið til að fjármagna samgöngubætur. Í fyrra var 7 milljarða kr. hagnaði af rekstri varið til nauðsynlegra fjárfestinga en ekki arðgreiðslna. Útlit er fyrir enn sterkari stöðu félagsins á næstu árum og þá getur það greitt út arð sem væri hægt að nýta í uppbyggingu um allt land.

Fyrirhuguð lækkun á almennu þrepi virðisaukaskatts er ekki skynsamleg ráðstöfun, jafnvel þótt aðrar aðstæður væru uppi en nú í mikilli uppsveiflu. Aðgerðin er í takt við breytingar síðustu ára þar sem skattkerfið er flatt út og ójöfnuður er aukinn á kostnað velferðarkerfisins. Verið er að búa þannig um hnútana að þeir sem best standa njóti góðærisins betur en aðrir. Nær væri að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins og styðja betur við börn og fólk sem býr á dýrum og ótryggum leigumarkaði í stað þess að minnka stuðninginn við þessa viðkvæmu hópa, eins og áætlunin gerir ráð fyrir.

Sé markmiðið að draga úr umsvifum ríkisins sama hvað það kostar ætti frekar að lækka tryggingagjaldið. Þannig væri stutt við uppbyggingu vel launaðra starfa í mannaflsfrekum þekkingargeiranum og í alþjóðageiranum.

Nauðsynlegt er einnig að styrkja tekjustofna sveitarfélaga sem sinna stórum og mikilvægum verkefnum. Stærri hlutur sveitarfélaga í tekjum ríkisins af ferðamönnum væri sanngjarn, enda skilja ferðamenn eftir sig stærri spor en tekjur flestra sveitarfélaga ráða við að bæta og tekjurnar duga sjaldnast heldur til að byggja upp innviði til að fyrirbyggja eyðileggingu vegna álags.

Margir hafa komið fyrir fjárlaganefnd og bent á að skattalækkanirnar sem reiknað er með í fjármálaáætluninni séu illa ígrundaðar og betra væri að styrkja tekjuöflun ríkisins nú þegar vel árar. Þessa gagnrýni er m.a. að finna í umsögn fjármálaráðs. Meiri hlutinn lætur ekki mikið með þá umsögn og horfir fram hjá þyngstu athugasemdunum. Síðan setur hann fram hugmyndir um að veikja tekjugrunn ríkisins enn frekar og þvert á ábendingar fjármálaráðs.

Meiri hluti fjárlaganefndar og þingmenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki ráða við það verkefni að fjármagna almannaþjónustuna. Í stað þess að styrkja tekjuöflunina í takt við athugasemdir sendir meiri hlutinn 8,5 milljarða kr. reikning á skattgreiðendur.

Ótryggur eins manns meiri hluti þessarar ríkisstjórnar sem féll í fyrstu skoðanakönnun og nú á fyrsta prófi sínu mun reynast almenningi dýrkeyptur. Hann hendir 8,5 milljörðum kr. út um gluggann svo hæstv. ríkisstjórnin fái ár í viðbót til að smala liði sínu saman.

Frú forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022 er svik við kjósendur og almenning í landinu. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Þegar fjármálaáætlunin var kynnt voru stóru fyrirsagnirnar um 20% aukningu til heilbrigðiskerfisins. Það gleymdist að vísu að segja frá því í leiðinni að stærstur hluti þeirrar aukningar væri bygging nýs Landspítala. 3. minni hluti fagnar því að byggja eigi nýjan spítala, en hverjum hefði dottið í hug fyrir kosningar að samhliða loforði um byggingu spítalans ætti að skera niður þjónustu á sjúkrahúsunum, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri? Sú viðbót sem ætluð er til spítalanna í fjármálaáætluninni nægir ekki einu sinni til að mæta fjölgun sjúklinga, hvað þá að hún dugi til að vinna á biðlistum eða fyrir nauðsynlegum tækjakaupum eða viðhaldi. Þetta þýðir niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og því mótmælir Samfylkingin, jafnaðarmannaflokkur Íslands, og krefst breytinga á fjármálaáætluninni.

Fjárhæðir til samgöngumála og löggæslu geta ekki mætt uppsafnaðri þörf fyrir samgöngubætur og til að létta álagi af löggæslu í landinu. Menntastofnanir eru sveltar og einnig helstu jöfnunartæki ríkisins, barnabætur og vaxtabætur.

Í samþykkt fjármálaáætlunar felst að Alþingi samþykki að stjórnvöld fylgi áætluninni og tölur um útgjöld málasviða verði undirstaða fjárlagafrumvarps næsta árs. Því teljum við í Samfylkingunni að ekki verði hjá því komist að leggja fram breytingartillögur í þeim málaflokkum sem almenningur kallar eftir umbótum á og þar sem svik stjórnarflokkanna eru hvað augljósust.

Í framlögum til heilbrigðismála koma kosningasvik hæstv. ríkisstjórnar vel í ljós. Fyrir kosningar töluðu allir flokkarnir um stóraukin fjárframlög til heilbrigðisþjónustunnar og betri þjónustu um allt land. Ákalli fólksins í landinu um að heilbrigðisþjónustan yrði framar í forgangsröðinni hjá stjórnvöldum er ekki sinnt. Því mótmælir 3. minni hluti harðlega og leggur fram breytingartillögur.

Framlög til sjúkrahúsþjónustu verða samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun aukin um 16 milljarða kr. á tímabilinu til ársins 2022. Þar af nema framlög vegna byggingar nýs Landspítala 8,7 milljörðum kr. og aukin framlög til annarra þátta því 7,3 milljörðum kr. Ef þetta verður niðurstaðan mun rekstrarvandi fyrirsjáanlega blasa við öllum heilbrigðisstofnunum þegar á næsta ári, þar með talið á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þessi aukning er til muna minni en sú lágmarksviðbótarfjárþörf sem t.d. Landspítalinn hefur áætlað að þurfi til reksturs spítalans, m.a. vegna mannfjöldaþróunar, styttingar biðlista, lágmarksviðhalds og tækjakaupa auk annarra aðkallandi verkefna. Í viðmiði fyrir breytingartillögur 3. minni hluta er gert ráð fyrir að aukningin sem ætluð er til sjúkrahúsþjónustu erlendis vegna biðlistatilskipunarinnar gangi til Landspítalans þannig að fleiri sjúklingar fari í nauðsynlegar aðgerðir hér á landi í stað þess að neyðast til að ferðast til þess til útlanda.

Breytingartillagan til sjúkrahúsþjónustu, sem er málasvið 23 í áætluninni, er þannig að við í Samfylkingunni leggjum til að 7.850 milljónir verði settar til viðbótar áætluninni á árinu 2018 og 2019 verði lagðar til 9.544 milljónir, 2020 11.440 milljónir, 2021 12.218 milljónir og 2022 14.900 milljónir.

Ef standa á við markmiðið um að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður almennings í heilbrigðiskerfinu er nauðsynlegt að endurskoða rekstrarlíkan stöðvanna, einkum á landsbyggðinni. Að auki eru málefni heilsugæslunnar sérstakt áskorunarefni í ljósi hins nýja greiðsluþátttökukerfis sem færir heilsugæslustöðvunum enn frekari verkefni sem hliðvörðum inn í heilbrigðiskerfið. Það krefst aukins viðbúnaðar, bæði hvað varðar aðstöðu og skipan fagfólks. Samfylkingin telur að greiðsluþátttaka allra sé nú þegar of mikil í heilbrigðisþjónustunni, nýtt kerfi sé vanfjármagnað, þakið of hátt og hætta á að hækkun á kostnaði hjá stórum hluta notenda muni leiða til þess að tekjulægri hópar neiti sér um heilbrigðisþjónustu í enn meira mæli en nú er. Samfylkingin vill að stefnt sé að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og talaði fyrir því í aðdraganda kosninga að greiðsluþátttaka sjúklinga yrði minnkuð í áföngum. 3. minni hluti leggur því til breytingar þar sem gert er ráð fyrir fjármagni til að lækka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu og styrkja heilsugæsluna í landinu.

Brýn þörf er fyrir fjölgun hjúkrunarrýma og fjármagn skortir til rekstrar þeirra sem fyrir eru. Fjölgunin sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætluninni er ekki nægileg til þess að leysa brýnan vanda á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og nemur einungis helmingnum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými fram til ársins 2020. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir að fjölga dagdvalarrýmum um 150 til ársins 2022. Jafnframt er stefnt að því að bæta aðbúnað og uppfylla kröfur um öryggi og byggingarreglugerðir á mörgum stofnunum aldraðra og gert ráð fyrir að á tímabilinu verði ráðist í endurbætur á 115 rýmum. Aukning framlaga til málefnasviðsins í heild er áætluð um 5 milljarðar kr. sem er hvergi nærri þeim raunverulegu útgjöldum sem af þessum verkefnum hljótast. Starfsemi nýju hjúkrunarheimilanna hefst í áföngum fram til ársins 2022. Rekstur þeirra kostar á núverandi verðlagi um 2,9 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar þau verða öll komin í fullan rekstur. Í þennan lið vantar verulegt fjármagn ef áætlanir eiga að verða að raunveruleika. Í breytingartillögum 3. minni hluta felst áætlun um hve miklu fjármagni þarf að bæta við til reksturs hjúkrunarheimilanna. Nauðsynlegt er og löngu tímabært að gera áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og fjármagna hana. Ef það verður ekki gert verðum við í stórkostlegum vanda innan fárra ára vegna breytinga á aldursskiptingu þjóðarinnar.

Löngu tímabærar breytingar á réttindum örorkulífeyrisþega í almannatryggingakerfinu til samræmis við þær breytingar sem gerðar hafa verið á réttindum ellilífeyrisþega telur 3. minni hluti vera forgangsverkefni. Það var einnig kosningaloforð núverandi stjórnarflokka fyrir síðustu kosningar. Óljós vilyrði um efndir eru ekki gefin fyrr en í fyrsta lagi árið 2019. Á meðan búa örorkulífeyrisþegar við flókin og ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur. Samfylkingin leggur áherslu á að áður en starfsgetumat verður tekið upp, eins og boðað hefur verið, muni stjórnarmeirihlutinn kynna sér vandlega reynslu annarra landa af því hvaða áhrif endurmatið hefur haft á kjör öryrkja, t.d. í Bretlandi. Litlu skiptir hvað það mat er kallað sem skýrir stöðu fólks sem einhverra hluta vegna er ekki með 100% starfsgetu ef ríkið eða atvinnulífið sem heild neitar að koma til móts við fólk með ráðningu í hlutastörf eða með sveigjanlegum vinnutíma. Sumir þurfa t.d. á dýrum hjálpartækjum að halda og enn aðrir geta suma daga verið með 100% starfsgetu en á öðrum tímum aðeins með 20% starfsgetu. Til er fólk sem mun aldrei geta haslað sér völl á vinnumarkaði og taka þarf tillit til aðstæðna þess. Einnig þarf t.d. að taka tillit til aðstæðna úti á landi þar sem atvinnulífið er ekki eins fjölbreytt og á höfuðborgarsvæðinu. Ef alvara er að baki því að grípa til aðgerða sem stuðlað geta að því að fækka fólki með örorkumat ber fyrst og fremst að leggja höfuðáherslu á aukinn jöfnuð í samfélaginu. Í breytingartillögum sem Samfylkingin gerir við þessa fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar leggur hún til kjarabætur til öryrkja strax á árinu 2018 og þær haldi síðan áfram út áætlunartímann.

Samhliða skuldaleiðréttingunni svokölluðu á síðasta kjörtímabili lækkuðu stjórnvöld vaxtabætur, létu barnabætur tapa verðgildi sínu og gerðu tekjuskerðingar bótanna þar að auki meiri en áður. Núverandi ríkisstjórn heldur áfram á sömu braut.

Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hefur fátækt barna aukist. Mörg börn búa við óviðunandi aðstæður og húsnæðiskostnaður er mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Vanda láglaunafólks og einnig fólks með meðaltekjur mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og húsnæðisstuðning. Útgjöld til barnabóta halda áfram að dragast saman að raungildi líkt og undanfarin ár samkvæmt fjármálaáætluninni. Fjölskyldum sem fá barnabætur fækkaði um tæplega 12 þúsund milli áranna 2013 og 2016 og heldur áfram að fækka á næstu árum. Það hefur stöðugt hallað á ungar barnafjölskyldur á undanförnum árum og fólki hefur verið gert erfiðara um vik að ala upp börn sín við efnahagslegan stöðugleika. Það er raunverulegt áhyggjuefni og Samfylkingin leggur til heildarendurskoðun á stuðningi við barnafjölskyldur og á barnabótakerfinu og að við þá endurskoðun verði litið til Norðurlanda í því sambandi. Þess vegna gerum við tillögu um viðbótarframlög til að mæta barnafjölskyldum og stefna í þá átt að stuðningur við þær verði líkari því sem gerist á Norðurlöndunum en hæstv. ríkisstjórn vill ekki líta þangað eftir sínum fyrirmyndum við stuðning við barnafjölskyldur heldur taka ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvað það varðar.

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem hafa valdið því neyðarástandi sem ríkir á fasteignamarkaði en þau veigamestu eru skortur á framboði, tilurð risastórra leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni, íbúðir sem leigðar eru ferðamönnum og sambland aðgerða og verkleysis síðustu ríkisstjórnar og því miður virðist sú nýja ekki hafa metnað til að gera betur. Það er nauðsynlegt að bregðast við ástandinu á húsnæðismarkaðnum með öllum tiltækum ráðum. Fyrir liggur þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um að ríkisstjórnin komi að uppbyggingu 1.000 leiguíbúða á ári frá og með árinu 2018 og að lágmarki næstu fjögur árin þar á eftir. Þannig geta stjórnvöld aukið framboð af niðurgreiddu húsnæði og unnið gegn þeirri miklu spennu sem nú er á húsnæðismarkaði.

Þriðji minni hluti telur að vinna þurfi hratt að því að hlutfall ráðstöfunartekna heimila sem varið er í húsnæðiskostnað verði ekki hærra en 25%. Nú er ástandið þannig að mikið öryggisleysi er á húsnæðismarkaði og húsnæðiskostnaður í mörgum tilvikum nærri helmingur ráðstöfunartekna fjölskyldna. 3. minni hluti leggst gegn því að dregið verði úr húsnæðisstuðningi í vaxtabótakerfinu og leggur til að viðmiðunarfjárhæðum í kerfinu verði ekki haldið föstum allt tímabilið. Ef áætlun ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga mun fækka í hópi þeirra sem fá vaxtabætur sem dregur enn meira úr jöfnunarhlutverki kerfisins. Þá er mikilvægt að ljóst liggi fyrir hvernig farið verði með húsnæðisbætur til leigjenda en af lestri fjármálaáætlunar er óljóst hvort upphæðir húsnæðisbóta muni standa í stað eða fylgja þróun verðlags.

Við stöndum frammi fyrir samfélagsbreytingum á næstu áratugum þar sem allt bendir til þess að atvinnulíf muni taka stakkaskiptum. Með aukinni sjálfvæðingu og gervigreind munu mörg störf hverfa, önnur haldast og ný verða til. Eina raunhæfa leiðin til að mæta þessari áskorun er að efla skólastarf og aðlaga það nýjum veruleika. Stefna ríkisstjórnarinnar er önnur og henni mótmælir Samfylkingin harðlega og telur hana lýsa ótrúlegri skammsýni ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum.

Framhaldsskólarnir standa frammi fyrir miklum áskorunum á næstu skólaárum, m.a. við að tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er, enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land; að bregðast við því að nemendum fækkar í bóknámi vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs; að takast á við tímabundna fækkun nýnema vegna færri einstaklinga í árgangi; að fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi; að vinna gegn brottfalli nemenda og að efla starfsmenntun.

Samfylkingin leggur því til að framhaldsskólarnir fái auknar fjárveitingar á meðan vandinn gengur yfir því að strax árið 2021 fer nýnemum aftur að fjölga og fjölgar meira næstu árin þar á eftir. Með fjárveitingunum verði skólunum gert kleift að halda úti fámennum áföngum, auka samstarf skóla með fjar- og dreifnámi og halda aðgengi að framhaldsskólum í heimabyggð. Einnig leggur 3. minni hluti til að sá sparnaður sem hlýst af styttingu námstíma til stúdentsprófs verði nýttur til að styrkja framhaldsskólakerfið, bæði stoðþjónustu og kennslu.

Samfylkingin telur þau framlög til háskólastigsins sem lögð eru til með fjármálaáætluninni vera ávísun á að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum og að samkeppnisstaða landsins versni ár frá ári. Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 millj. kr. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðunum því framlagið nemur rúmlega 2,2 millj. kr. að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs er markmiðið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins svo að hún verði a.m.k. sambærileg við meðaltal annarra norrænna ríkja árið 2020. Tillaga ríkisstjórnarinnar að fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 sýnir hins vegar að ekki á að vinna að því markmiði og reyndar langt því frá. Ef ekki verður lagt meira fé til reksturs háskólakerfisins þarf að fækka nemendum og draga úr fjölbreytileika í námsframboði. Slíkt getur Samfylkingin alls ekki stutt og leggur til að farið verði í átak sem færi háskólakerfið nær því sem best gerist í nágrannalöndunum með því að bæta milljarði við áætluð fjárframlög á hverju ári sem fjármálaáætlunin nær til. Þessar viðbætur munu þó ekki duga til þess að ná hinum norrænu ríkjunum í fjárframlögum á hvern nemenda og því þarf að halda áfram í átt að settu marki Vísinda- og tækniráðs.

Augljóst er að þau framlög sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir til samgangna og fjarskipta nægja engan veginn til að mæta þeirri þörf sem fyrir er í landinu. Landshlutasamtök sveitarfélaga sem komu til fundar við fjárlaganefnd eftir framlagningu fjármálaáætlunarinnar lýstu öll áhyggjum af ástandi vegakerfisins sem er orðið mjög bágborið. Þar kemur bæði til að ekki hefur verið veitt nægt fé í viðhald og nýframkvæmdir og álag vegna fjölgunar ferðamanna, einkum á ákveðnum svæðum landsins. Bættar samgöngur munu skila sér í margvíslegu formi til íbúa landsins. Betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnuvegina, búsetuskilyrðin og stuðla að uppbyggingu og bættri líðan fólks á landsvæðum þar sem samgöngur eru svo slæmar að ástandið bitnar á lífsgæðum íbúa. Eitt af meginskilyrðunum fyrir búsetu um allt land er að fjarskipti séu í góðu lagi alls staðar. Því þarf að styrkja þá áætlun sem fyrir er í fjarskiptamálum og flýta því að kerfið virki á öllu landinu. Í breytingartillögum Samfylkingarinnar er gert ráð fyrir því og að samgönguáætlun verði að fullu fjármögnuð fyrir árið 2018 og nauðsynleg aukning verði út áætlunartímann. Þetta þýðir að á árinu 2018 verði viðbót sett inn í áætlunina upp á rúma 7,7 milljarða og slík tala haldist nokkuð óbreytt til ársins 2021 en geti þá lækkað niður í 3 milljarða kr.

Álag á lögreglu vegna fjölgunar ferðamanna hefur aukist um allt land frá árinu 2012 þegar stökk kom í fjölgunina. Lögreglumönnum hefur ekki fjölgað í takt við fjölda mála sem snúast um brot fólks með erlenda kennitölu né í takt við fjölgun ferðamanna. Því er nokkuð ljóst að álag á hvern lögregluþjón hefur aukist mikið og búast má við að þjónusta við íbúa sem ekki varðar líf og limi fólks sitji á hakanum. Því leggjum við til breytingartillögur á fjárframlögum til að bæta löggæslu í landinu og létta álaginu af einstaka lögregluþjónum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sammælst um að framlög til þróunarsamvinnu verði 0,7% af vergum þjóðartekjum ríku iðnríkjanna. Fá ríki skila því viðmiði til fátækustu þjóða heims og við Íslendingar erum langt undir því viðmiði. Í fjármálaáætluninni leggur ríkisstjórnin til að 0,26% af vergum þjóðartekjum verði varið til þróunarsamvinnu. Milljarður manna fær ekki hreint vatn og 2,4 milljarðar manna búa ekki við hreinlætisaðstöðu. Að jafnaði deyr eitt barn úr malaríu á 30 sekúndna fresti. Meðalævi í fátækum löndum er um helmingi styttri en á Vesturlöndum. Flóttamannastofnunin sendi út neyðarkall til ríkja heims á þessu ári um að auka fjárframlög til mannúðarmála og þróunarsamvinnu. Íslenska þjóðin, sem er ein sú ríkasta í heimi, á að sjá sóma sinn í að gera mun betur. Árið 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun um þróunarsamvinnu með aðeins einu mótatkvæði, en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aftengdi hana á síðasta kjörtímabili. Hefði þeirri þingsályktun verið fylgt hefðu framlög Íslands til þróunarsamvinnu numið 0,5% af vergum þjóðartekjum árið 2017 og náð viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um 0,7% árið 2019. Samdrátturinn heldur áfram í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Í breytingartillögum 3. minni hluta er gert ráð fyrir að framlög til þróunarsamvinnu hækki upp í 0,29% af vergum þjóðartekjum á árinu 2018 og fari stighækkandi þannig að framlögin hækki um 0,01 prósentustig á ári til ársins 2022 og verði þá orðin 0,33% af vergum þjóðartekjum. Slík hækkun er algjört lágmark og ætti í raun að vera mun meiri svo sómi væri að.

Frú forseti. Breytingartillögurnar sem 3. minni hluti, sem skipaður er fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, telur lágmarksbreytingar sem gera þurfi á fjármálaáætluninni samtals 30.844 milljónir á árinu 2018, rúmlega 32 milljarðar 2019, tæplega 38 milljarðar 2020, tæplega 40 milljarðar 2021 og rúmlega 40 milljarðar 2022. En það er ekki ábyrgt að henda fram útgjaldahugmyndum án þess að skýra út hvar á að taka tekjurnar á móti. Það gerir 3. minni hluti. Við leggjum til tekjuaukningu sem er rúmlega fyrir þeim útgjaldaaukningum sem við erum með, enda þarf auðvitað að skoða önnur málasvið en við gerum breytingartillögur við og það þarf líka að skila auknum tekjuafgangi í þeirri stöðu sem er í samfélaginu, þeirri þenslu og spennu sem við búum við. Við þurfum að búa í haginn fyrir niðursveifluna sem mun koma.

Frú forseti. Ég mun setja mig aftur á mælendaskrá til að fara betur yfir tekjuhugmyndir okkar í Samfylkingunni, en þær lúta að því að auka jöfnuð í samfélaginu og að sporna gegn því að eignir safnist á fárra hendir og þjóðin fái sanngjarnari arð af auðlindum sínum. Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá svo ég geti farið yfir tekjuhugmyndir og fleiri mál sem eru órædd.