146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:56]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þetta. Nú man ég ekki tölurnar sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir nefndi um fjárþörfina eða aukna fjárþörf frá ári til árs. Mér heyrðist það vera á hverju ári eitthvað nálægt því sem er heildarútgjaldaaukningin á líftíma þessarar áætlunar. En það er ekki þannig að hægt sé að búa til ríkisfjármálaáætlun og síðan fjárlagafrumvarp og byggja það á því að taka saman óskalistann og segjast svo hafa í nóga sjóði að sækja. Það er ekki hægt að gera það þannig að segja að það vanti um 30–40 milljarða á ári til þessara hluta, eins og lýst var í ræðunni áðan, og segja svo bara: Þetta er talan sem við ætlum að sækja. Það er ekki hægt að ákvarða þörfina og ákveða að hún verði síðan uppfyllt með skattlagningum á einhverja aðila í þjóðfélaginu; að hægt sé að sækja 20 milljarða í ferðamannaiðnaðinn, 20 milljarða í hækkuð veiðigjöld, og telja svo bara upp tugi milljarða án þess meira að segja að taka nokkurt mið af því hver staða þessar atvinnuvega og atvinnugreina er í raun í dag.