146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel afar brýnt fyrir skulduga þjóð að greiða niður skuldirnar sínar. Ég er ekki að leggja til að dregið verði úr því. Ég er sammála hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra þegar hann leggur áherslu á það. En staðan er þannig að við getum gert hvort tveggja. Við getum bæði greitt niður skuldir og haldið hér úti sómasamlegri velferðarþjónustu. Þannig er staðan og það eigum við að gera. Við eigum auðvitað miklu frekar að ganga þá leið en að fara í skattalækkanir á almennu virðisaukaskattsþrepi, sem allir eru sammála um að er ekki mjög góð jöfnunaraðgerð. Við ættum frekar að gera eins og Samfylkingin leggur til, að efla barnabótakerfið, ef við viljum auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins.

En ég verð að segja nei við hv. þingmann. Staðan er þannig að við getum bæði greitt niður skuldir og haldið úti góðu velferðarkerfi og komið til móts við ákall almennings hvað það varðar á þeim stöðum.

Seinni spurning hv. þingmanns var um laun ríkisstarfsmanna. Það er náttúrlega af og frá. Ég hef áhyggjur af því, því að það er sanngjörn krafa hjá ríkisstarfsmönnum sem hafa fengið lægri laun vegna betri lífeyrisréttinda. Það hefur verið margoft sagt við þá og í mín eyru þegar ég var í kringum samninganefnd stéttar sem þurfti að semja við ríkið, það var ávallt talað um að svo og svo mörg prósent af kjörunum væru lífeyriskerfið og sá ábati sem ríkisstarfsmenn fengju af því. Því hlýtur það að koma til aukinna útgjalda vegna þessa. Ég hef áhyggjur af því að (Forseti hringir.) ekki verði farið í að afla tekna á móti heldur verði skorið niður í velferðarþjónustunni. Það er meira í takt við það sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.