146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég verð að taka undir það. Ég hef nefnilega áhyggjur af þessu og hef viðrað hér í pontu varðandi þetta lífeyrissjóðasamkomulag og þau kjör. Jafnlaunafrumvarpinu hefur verið flaggað töluvert og það kannski liggur svolítið í loftinu að það eigi að jafna meira en það gerir. Á meðan er sagt að hagkerfið þoli ekki í raun þann óútskýrða launamun sem er á vinnumarkaði, hvað þá þegar kemur að þeim kjörum eða breytingum sem áttu sér stað þarna.

Ég tek undir þetta með skattalækkanirnar. Það er algert óráð, eins og allir sem hafa komið að því að veita ríkisfjármálaáætlun umsögn hafa bent á.

En hvað þá með það sem nota á til niðurgreiðslu skulda? Finnst hv. þingmanni það vera sannfærandi eins og það er lagt upp í ríkisfjármálaáætlun með sölu eigna og öðru slíku sem þar er lagt fram eða (Forseti hringir.) telur hún að það sé ekki nógu haldfast?