146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Áður en ég svara henni vil ég segja að markmiðið eftir efnahagshrunið mikla var að stöðva skuldasöfnun ríkisins. Við söfnuðum auðvitað skuldum á meðan við vorum með hallarekstur á hverju ári. Þegar við vorum búin að stöðva skuldasöfnunina kom tímabil á síðasta kjörtímabili þar sem við vorum með slaka í hagkerfinu og vorum á uppleið, tekjurnar voru að aukast, sem við hefðum auðvitað átt að nýta til að fara í fjárfestingar og viðhald, bæði innan sveitarfélaga með því að auka fjárframlög þangað, en eins í velferðarkerfinu og vegakerfinu.

En það voru ár hinna glötuðu tækifæra. Það er hreinlega hægt að orða það þannig, því að þar var slakinn í hagkerfinu og hægt að fá verkin ódýrari en núna í þenslunni. En þrátt fyrir þá stöðu sem við erum komin í getum við ekki látið hjá líða að fara í þessi verkefni. Þess vegna þurfum við að ná í tekjurnar til að gera það. Það er allt í lagi að taka krónurnar sem eru til og skipta þeim með öðrum hætti. Stjórnarliðar láta eins og það sé ekki hægt. Það er rangt. Við getum aflað teknanna og skipt þeim með öðrum hætti og sett þær í málefni sem skipta almenning svo miklu máli nú um stundir.

Hv. þingmaður spyr hvað við myndum gera ef þetta væri minnihlutastjórn í alvörunni, þ.e. í þingmönnum talið. Þá myndum við auðvitað setjast niður og semja um breytingar. Við myndum gera á þessu bætur sem skiptu máli og yrðu þóknanlegar meiri hluta kjósenda. En núna er það ekki þannig. Enda þessi ríkisstjórn löngu fallin. Hún féll líka á fjármálaáætlunarprófinu.