146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ekki vinstri samkvæmt ráðherra, jei, einhver verður að hringja í hv. þm. Pawel Bartoszek.

Ég les úr töflunni í meirihlutaáliti nefndarinnar 8,8% aukningu í sjúkrahúsþjónustu. Vissulega er aukning annars staðar en ég tók saman, sem ég fór ekki yfir í áliti mínu en þarf að gera seinna þegar ég hef betri tíma til þess, þá aukningu sem er 17,9% á þessum fimm árum, 2017–2022, og bar saman við málaflokkana eins og þeir eru settir upp samkvæmt COFOG-staðli Sameinuðu þjóðanna, þá tekur maður heilbrigðismálaflokkana sem eru settir saman þar, og það er ekki alveg nákvæmlega sömu tölur þar á milli, það munar nokkrum milljörðum, en almennt eru það heilbrigðismál samkvæmt COFOG-staðlinum og heilbrigðismál samkvæmt málefnasviðunum. Ef maður skoðar hækkunina á þeim báðum á þessu fimm ára bili er hækkunin frá 2000–2008, á hverju fimm ára tímabili þar, hærri á öllum tímabilum en á núverandi fimm ára tímabili.

Hvað varðar að leggja aðaláherslu á heilbrigðismál þá eru engin met slegin þar. Eftir að ég er búin draga frá stofnkostnað, 8,8%, þá klóra ég mér í hausnum aftur og ég skil ekki forgangsröðunina þarna. Þetta er vel undir spáðum hagvexti t.d., þarna er verið að forgangsraða sjúkrahúsþjónustu neðar í heildina á litið af því að hún er undir þeim vexti sem við erum að fara í áttina að. Ég kem kannski að pólitíkinni næst, þetta er búið núna.