146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:48]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo sem litlu nær en fæ þá væntanlega að heyra það betur á eftir. Það er svo varðandi töfluna sem þingmaðurinn vísar til í meirihlutaáliti, sem er í hinum sögulega samanburði rétt að hafa í huga, að verið er að byggja spítala á þessu tímabili sem kemur til viðbótar þeim útgjaldaauka sem þarna er sérstaklega tilgreindur til rekstrar. Það sem ég er einfaldlega að benda á í því samhengi er að verið er að taka á fráflæðivanda eða útskriftarvanda spítalans. Það er líka tekið á því á að efla heilsugæsluna til að forða því að sjúklingar leiti inn á Landspítala sem ættu að vera að leita þjónustu annars staðar. Allt léttir þetta verulega á spítalanum og getu hans til að sinna frumskyldu sinni sem háskólasjúkrahús. Auðvitað má heldur ekki gleyma því að í byggingu nýs spítala felst mikið rekstrarlegt hagræði sem gefur okkur aukið svigrúm til lengri tíma litið til að styrkja heilbrigðisþjónustuna enn frekar.

Þess vegna held ég að það sé alveg skýrt að forgangsröðunin er öll á heilbrigðismálunum og almannatryggingunum. Ég ætla heldur ekki að gera lítið úr eigin málaflokki en þar er verið að efla stoðir almannatrygginga mjög myndarlega bæði á þessu ári, næsta ári og í gegnum ríkisfjármálaáætlun, þannig að forgangsröðunin er alveg skýrt. Pólitíska forgangsröðunin er alveg skýr. Lunginn af útgjaldaaukningu fer inn á þessi mikilvægu málasvið. Þess vegna veltir maður því svolítið fyrir sér hvar í pólitíkinni menn liggja. Ég skil mætavel að það eru flokkar sem vilja einfaldlega umfang ríkisins miklu meira en það er og skatta miklu hærri en þeir eru þó svo að þeir teljist hér mjög háir í alþjóðlegu samhengi. En ég er svolítið forvitinn að sjá hvar Píratar raða sér á þennan ás, þótt ég átti mig fyllilega á því og beri fulla virðingu fyrir því að þið skilgreinið ykkur ekki hefðbundið hægri/vinstri.

(Forseti (TBE): Forseti sér ástæðu til þess að minna þingmenn á að beina ræðu sinni til forseta.)