146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið og langar að halda áfram á sömu nótum. Komið er inn á hluta af afleiðingum þessarar óskýru framsetningar í áliti 4. minni hluta fjárlaganefndar þar sem talað er um árekstra innan stjórnsýslunnar sem lýsa sér m.a. í því að plássfrekir málefnaflokkar éta upp málefnasviðið, eins og hinir neyslugrennri hlutar málefnasviðsins kalla það. Þannig skapast óþarfatogstreita innan stjórnsýslunnar þar sem bitist er um bitana á einhverjum öðrum stað en vanalega. Vanalega hefur þetta verið útkljáð hér í þingsal. Við höfum sett ramma um það hversu mikið fer til löggæslu, hversu mikið til Landhelgisgæslu o.s.frv. hér fyrir opnum tjöldum, en eins og fram kemur í áliti minni hlutans á þetta að færast upp í ráðuneytið. Er það ekki áhyggjuefni?

Þá langar mig að víkja aðeins að markmiðasetningunni sem þingmaðurinn kom ágætlega inn á, sem er eiginlega með ólíkindum hversu ólík er milli ráðuneyta. Menntamálaráðuneytið tekur bara fram í texta að það muni ekki áætla neinar tölur á markmið sín. Forsætisráðuneytið hunsar það að setja þau fram. Samgönguráðuneytið setur fram frekar ítarleg tölusett markmið með kostnaðarliðum. Ekkert samræmi. Það er ekki einu sinni í samræmi við þær áætlanir sem í gildi eru á viðkomandi sviði. Það kemur fram í áliti okkar Vinstri grænna við málið í löggæslunni þar sem við erum með þingsályktunartillögu um löggæsluályktun (Forseti hringir.) með fjórum markmiðum þar sem (Forseti hringir.) markmið um áætlun um mannaflaþörf er ekki inni í fjármálaáætlun, þó að það sé eitt (Forseti hringir.) brýnasta markmið löggæsluáætlunar.