146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir ræðuna og þá miklu vinnu sem hún hefur greinilega lagt í umsögn um fjármálaáætlun. Þær spurningar sem ég vil beina til þingmannsins snúa að því sem ég stoppaði við í ræðu hennar þar sem hún talaði um áhyggjur sínar af því að einstaklingar þyrftu að neita sér um heilbrigðisþjónustu. Það hafa ítrekað verið gerðar rannsóknir þar sem fram kemur að það eru tilvik þar sem fólk hefur dregið að leita sér læknis. Ég hef í gegnum tíðina velt fyrir mér hvernig ég sjálf myndi svara spurningum um hvort ég hefði dregið að leita aðstoðar. Svarið við þeirri spurningu er já. Það hefur einfaldlega verið vegna þess að það var tímaskortur eða ég taldi það ekki aðkallandi, þar af leiðandi tók ég ákvörðun um að fara ekki til læknis þótt ég hefði hugsanlega þurft þess. Mér hefur alltaf þótt áhugavert að fá skýrari svör um hverjar væru helstu ástæður þess að fólk leitaði sér ekki aðstoðar, hvort komið hafi fram einhverjar upplýsingar um það í meðferð nefndarinnar hverjar ástæður þess væru að fólk leitaði sér almennt ekki lækninga. Í lokaorðum þingmannsins í álitinu bendir hún á að hún telji þær aðgerðir mjög ómarkvissar sem snúa að því að vinna gegn fátækt. (Forseti hringir.) Er einhvers konar samspil þarna á milli?