146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það var ekki rætt í nefndinni og fengust ekki neinar upplýsingar um það. Ég veit ekki einu sinni hvort þannig upplýsingar eru til. Ég get aðeins ímyndað mér þetta út frá eigin reynslu af því að eiga rosalega lítinn pening og vegna þess að í nánasta umhverfi mínu hefur alltaf verið fólk sem á ofboðslega lítinn pening. Ég veit að þegar fólk er komið í aðstöðu þar sem hver þúsundkall skiptir máli er það gríðarlega mikið að fara til kvensjúkdómalæknis og borga um 8.000 kr., og það var fyrir greiðsluþátttökukerfið, þá kostaði 8.800 kr. að fara í eitt skipti til kvensjúkdómalæknis en nú minnir mig að það sé komið upp í 12.300 krónur. Þessir þúsundkallar skipta máli fyrir gríðarlega marga. Mér finnst 8.000 kr. allt of dýrt til að byrja með. Þetta á ekki að vera svona dýrt, sérstaklega ekki þegar við lifum á tímum þar sem tíðni kynsjúkdóma eykst og við þurfum á því að halda að fólk fari og láti greina sig. Það eru t.d. slík atriði. Svo eru það þeir aðilar sem ég hef talað við sem hafa strítt við krabbamein. Sá kostnaður er gífurlegur sem safnast saman á þeim árum sem fólk er í meðferð og þarf að fara til læknis, hann er enn þá allt of mikill. Við eigum að stefna að því að vera með heilbrigðisþjónustu sem er aðgengileg öllum óháð efnahag. Þannig er staðan ekki í dag og við þurfum að laga það.