146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svörin. Það eru tölur sem er mikilvægt að endurtaka sem koma fram í umsögn hv. þm. Halldóru Mogensen þar sem hún talar um þróun útgjalda til mismunandi þátta heilbrigðiskerfisins. Hún bendir á að það hafi orðið 9% aukning frá 2013 inn í heilsugæsluna, 7% til Landspítalans en 42% til sérgreinalækna. Svo lengi sem ég man, frá því að ég settist á þing, virðist eins og við höfum ekki haft neina stjórn eða nein tök á hversu mikið fjármagn hefur farið í gegnum sjúkratryggingar og þar af leiðandi til sjálfstætt starfandi lækna. Þess vegna voru það mikil vonbrigði að ekki skyldi vera staðið við þau loforð sem gefin voru í tengslum við afgreiðslu greiðsluþátttökukerfisins fyrir kosningar þar sem lögð var mjög mikil áhersla á að lækka þakið, gera enn betur en lagt var til. Það var raunar forsendan fyrir því að þingið allt var sammála um að afgreiða málið, (Forseti hringir.) að þetta fjármagn ætti að tryggja. Svo sjáum við það hins vegar ekki í þessari áætlun.