146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það er mikið áhyggjuefni að útgjöld til heilsugæslunnar lækkuðu um 9% og 7% til Landspítalans á sama tíma og hækkað var til sérgreinalækna. Það sýnir að skortur er á stefnu. Þetta er að miklu leyti til vegna þess að samningar … (Gripið fram í.) — já, lækkuðu. Það er eins og þetta sé að gerast einhvers staðar af sjálfu sér og við höfum enga stjórn á því en málið er að það hefur engin umræða verið í gangi í samfélaginu um þetta. Umræðan er ekki í gangi og fólk gerir sér ekki grein fyrir því sem er að gerast og alla stefnumótun vantar. Þetta er ákvörðun sem við eigum að vera að taka á þingi í samráði við almenning, um hvort þetta sé þróunin sem við viljum sjá inn í framtíðina eða ekki. Viljum við að þetta haldi áfram eða viljum við styrkja opinbert heilbrigðiskerfið? Almenningur hefur talað og sagt skoðun sína. Fólki virðist hins vegar vera sama um það, sem er mjög alvarlegt mál fyrir lýðræðið.