146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:43]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í stórum dráttum gera grein fyrir umsögn umhverfis- og samgöngunefndar um fjármálaáætlun. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar styður meginlínur tekju- og gjaldaramma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018–2022. Að því sögðu vil ég koma aðeins inn á sjónarmið er varða þau málefnasvið sem undir nefndina heyra.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að gætt sé samræmis milli þeirra verkefna sem sveitarfélögum eru falin og þeirra tekna sem falla sveitarfélögum í skaut til að sinna verkefnum sem þeim eru falin. Að þessu leyti þarf sérstaklega að hafa hugfasta nauðsynlega innviðauppbyggingu vegna mikillar fjölgunar ferðamanna undanfarin misseri, ekki síst í ljósi umhverfismála. Meiri hlutinn hvetur til skýrrar verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga og að fjármagn fylgi þeirri línu og bendir á að samfara þessu kunni að vera þörf á endurskoðun þeirra hlutfallstalna sem fram koma í 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

Samkvæmt þeirri hagspá sem gengið er út frá í fjármálaáætlun erum við stödd á toppi hagsveiflunnar í einu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði sögunnar. Af þeim sökum hefur verið varað við þensluáhrifum og samhliða hvatt til aðhalds í ríkisrekstri og sér þess stað í fjármálastefnu og -áætlun ríkisstjórnarinnar, m.a. á því markmiði að afgangur af vergri landsframleiðslu fari vaxandi og verði 1% árið 2017 en 1,6% næstu tvö ár þar á eftir. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi aðhalds í ríkisrekstri og að spornað verði við óæskilegum þensluáhrifum af efnahagsuppsveiflunni. En þegar kemur að forgangsröðun verkefna á sviði samgangna og ráðstöfun viðbótarfjármagns til málaflokksins telur meiri hlutinn í þessu skyni mikilvægt að fram fari greiningarvinna á þensluáhrifum mismunandi verkefna og að unnið verði eftir þeirri greiningarvinnu. Þannig sé til að mynda ljóst að þensluáhrif samgönguuppbyggingar á köldum svæðum á landsbyggðinni séu hverfandi og að slík uppbygging sé ekki líkleg til að stefna markmiðum fjármálastefnu og -áætlunar ríkisstjórnarinnar um efnahagslegan stöðugleika í hættu. Telur meiri hlutinn að almennt beri að forðast að verkefni sem voru látin sitja á hakanum á árunum eftir hrun af þeirri ástæðu að þá var samdráttur, verði látin sitja á hakanum nú af þeirri ástæðu að nú sé þensla. Við þær efnahagsaðstæður sem nú eru uppi sé svigrúm til hraðari uppbyggingar ýmissa innviða á köldum svæðum.

Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að áfram verði hugað að öðrum möguleikum til fjármögnunar samgöngumannvirkja en með beinum framlögum úr ríkissjóði og styður hugmyndir um lausnir á borð við samstarfsfjármögnun ríkis og einkaaðila, sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur m.a. viðrað, um vegabætur á aðalumferðaræðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að fjármálaáætlunin bindi ekki hendur ríkisstjórnarinnar svo hún geti ekki ákveðið að taka þátt í verkefni um svokallaða borgarlínu og eflingu almenningssamgangna og vísar um það til framkominnar umsagnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármálaáætlun. Nefndin hefur í umfjöllun sinni um fjármálaáætlun, sem og um önnur þingmál, ítrekað komið inn á mikilvægi almenningssamgangna og leggur meiri hlutinn áherslu á að samstarf ríkis og sveitarfélaga um rekstur þeirra haldist gott. Meiri hlutinn fagnar áformum um uppbyggingu borgarlínu og leggur sem fyrr áherslu á að gert verði ráð fyrir svigrúmi fyrir aðkomu ríkisins að fjármögnun verkefnisins í samstarfi við sveitarfélög, samanber ákvæði þar um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Að því er varðar fjarskiptamál bendir meiri hlutinn á mikilvægi þess að fjármagn verði veitt til áframhaldandi innviðauppbyggingar. Meiri hlutinn fagnar sérstaklega og lýsir ánægju sinni með verkefnið Ísland ljóstengt og hvetur til að framhald þess verði tryggt. Meiri hlutinn telur mikilvægt þegar kemur að veitingu fjármagns til viðhalds og uppbyggingar fjarskiptainnviða að tekið verði sérstakt tillit til sveitarfélaga sem hafa fáa íbúa en ná yfir stórt landsvæði, og að áfram verði unnið að styrkingu GSM-kerfisins um allt land enda mikilvægt öryggisatriði að hugað verði að uppbyggingu neyðarfjarskipta.

Þá telur meiri hluti nefndarinnar ljósa nauðsyn þess að málaflokkur umhverfismála fái aukið vægi á komandi árum og leggur áherslu á að fjármagn fylgi auknum áherslum ríkisstjórnarinnar, m.a. til að ná fram markmiðum í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Meiri hlutinn leggur áherslu á setningu skýrra og mælanlegra markmiða í þessu samhengi. Meiri hlutinn fagnar einnig fregnum af undirritun samstarfsyfirlýsingar sex ráðherra um aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem liggja skuli fyrir í lok árs, og hvetur ríkisstjórnina til dáða í þeim efnum.

Sem fyrr segir styður meiri hluti nefndarinnar tekju- og gjaldaramma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og hvetur til samþykktar hennar að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan hafa verið rakin.