146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mig langar að halda áfram og velta upp fjarskiptamálunum. Hv. þingmaður nefndi þau aðeins. Það eru lagðir til ákveðnir peningar hér áfram. Ég hef efasemdir um að þeir dugi til ef við ætlum að halda okkur innan þess tímaramma sem upp var lagt með og spyr þingmanninn hvort hún telji að þeir dugi til að klára t.d. köldu svæðin, þar sem við höfum einblínt svolítið mikið á fjölda tenginga í staðinn fyrir að koma þeim í samband sem kannski síst hafa staðið og ekki verið samkeppnisfærir til að ná sér í peninga úr sjóðnum.

Síðan langar mig líka að spyrja um hafnarframkvæmdir. Ekki er mikið lagt til þeirra. Það kemur meira að segja fram í greinargerðinni með fjármálaáætluninni að þrátt fyrir að ríkissjóði beri skylda til þess samkvæmt lögum að koma til móts við sveitarfélögin og greiða ákveðinn hluta í hafnarframkvæmdum, þá sé ekki borð fyrir báru í þessari fjármálaáætlun sem nú er lagt upp með. Ég vil ítreka að við erum að leggja upp með fimm ára áætlun þó svo að við endurskoðum hana á hverju ári.