146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna, sem er nú á margan hátt samhljóða því sem kemur frá meiri hluta fjárlaganefndar, í einstaka punktum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég á svolítið erfitt með að skilja meiri hlutann í þessu máli þar sem minni hlutinn getur meira og minna tekið undir álit þessara aðila þar sem er veruleg gagnrýni á fjármálaáætlunina eins og hún liggur fyrir og þau verkefni sem þar eru. Hér nefndi hv. þingmaður að skoða þyrfti tekjuöflun sveitarfélaganna og voru lagðar til hlutfallstölur, þ.e. væntanlega að sveitarfélögin fengju hærra hlutfall í útsvar og skertu þar af leiðandi tekjuskatt ríkisins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort meiri hlutinn hafi skoðað að færa gistináttagjald yfir til sveitarfélaganna (Forseti hringir.) til þess að skapa þennan sama ramma. Svo vildi ég einnig heyra skoðun hv. þingmanns á því sem nefnt er í meirihlutaáliti fjárlaganefndar um að skynsamlegra sé að taka upp komugjöld en að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, þ.e. gistinguna.