146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu og hefur verið í dag þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Þar eru lagðar línur um markmið fyrir afkomu og efnahag hins opinbera í heild og fyrir opinbera aðila. Einnig eru gerðar áætlanir um þróun tekna og gjalda fyrir sömu aðila til næstu fimm ára.

Fjárlaganefnd hefur fjallað um málið frá því að það gekk til hennar þann 7. apríl sl. Í umsögn nefndarinnar er eðlilega af ýmsu að taka. Hv. formaður fjárlaganefndar, Haraldur Benediktsson, rakti í morgun í grófum dráttum vinnu nefndarinnar ásamt helstu ábendingum og tillögum. Núna, án þess að endurtaka það sem formaðurinn tiltók, langar mig að gera tiltekin atriði að umtalsefni.

Áður en ég kem að því verð ég að árétta það sem tekið er fram í umsögn meiri hlutans, að ríkisstjórnarskiptin í janúar féllu ekki vel að tímalínu nýrra laga um opinber fjármál. Þessi fjármálaáætlun ber þess því merki að stjórnarmeirihlutinn hefur haft knappan tíma til að undirbúa og útfæra fjármálaáætlun næstu ára. Það er svo til viðbótar því að lögin og vinnuaðferðir sem þeim tengjast eru enn í mótun hjá okkur öllum sem hlut eigum að máli, ekki eingöngu nýliðum á þingi. Framfarirnar eru hins vegar vissulega töluverðar frá því að fjármálaáætlun til fimm ára var fyrst lögð fram á Alþingi vorið 2016 og er því vonandi ekki langt í að við verðum fullnuma, sem er nú kannski bratt, í þessari nýju og bættu nálgun á ríkisfjármálin.

Mig langar líka að taka fram, þar sem mér finnst mikilvægt að það gleymist ekki í þeirri pólitísku umræðu sem nú á sér stað, að vinna nefndarmanna, hvort heldur er þingmanna í fjárlaganefnd eða öðrum fastanefndum þingsins, við þetta verk, sem og vinna þeirra fjölmörgu embættismanna og starfsmanna þingsins sem hafa komið að málinu, hefur verið yfirgripsmikil og fagleg. Það er ekki hægt að segja annað en að þar hafi allir lagst á eitt við þetta viðamikla verkefni.

Eitt meginmarkmið laganna um opinber fjármál er aukin áhersla á stefnumótun á öllum sviðum ríkisfjármála. Í samræmi við það var ákveðið að fjárlaganefnd óskaði eftir umsögnum annarra fastanefnda þingsins vegna stefnumótunar einstaka málefnasviða sem varða málefnasvið viðkomandi nefnda. Þessar umsagnir skapa síðan að mestu umfjöllun fjárlaganefndar um tiltekið málefnasvið.

Reynslan af þessu verklagi við þinglega meðferð fjármálaáætlunar sýnir okkur að ýmislegt á eftir að mótast betur. Vinna nefndanna var mjög umfangsmikil, vissulega mismunandi eftir því hvaða og hversu mörgum málefnasviðum var vísað til tiltekinna nefnda en engu að síður varð afleiðingin sú að önnur hefðbundin verkefni töfðust. Verkefni sem fyrir margar aðrar nefndir voru þó ærin. Í ljósi þessa telur fjárlaganefnd að mikilvægt sé að endurskoða starfsáætlun Alþingis frá grunni með tilliti til hinna nýju laga.

Þá er fjárlaganefndin og allflestar fagnefndir þingsins í umsögnum sínum sammála um að hlutverk Alþingis og geta til að takast á við hina breyttu umgjörð hafi ekki verið útfærð að fullu. Það er þekkt að í flestum ráðuneytum hefur starfsfólki verið fjölgað vegna hinna nýju laga og starf ráðuneyta í einhverjum tilfellum endurskipulagt. Að sama skapi er nauðsynlegt að Alþingi endurskipuleggi og styrki verulega þær stoðir sem geta tekist á við þetta nýja verklag með það fyrir augum að tryggja sjálfstæði Alþingis og alþingismanna við fjármálastjórnina.

Þá vil ég jafnframt ítreka það sem kemur fram í áliti meiri hlutans um mikilvægi þess að efla hagrænar greiningar svo að fjárlaganefndin geti staðið undir eftirlitshlutverki sínu í breyttu umhverfi opinberra fjárlaga.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir ekki tillögur um breytingar á þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018–2022. Meiri hlutinn gerir ekki tillögur um breytingar á þeim markmiðum sem þar eru sett fram fyrir afkomu og efnahag hins opinbera í heild né á áætlunum um þróun tekna og gjalda fyrir sömu aðila til næstu fimm ára. Hins vegar er það mat meiri hlutans að ýmislegt megi bæta og hef ég rakið hluta þeirra ábendinga sem tilteknar voru í áliti meiri hlutans.

Mig langar í seinni hluta ræðu minnar að ræða önnur atriði sem meiri hluti fjárlaganefndar vekur sérstaka athygli á undir lok umsagnar sinnar og tengjast þá frekar tilteknum málefnasviðum. Fyrst ber að telja það sem hefur verið einna fyrirferðarmest í umræðunni frá því að fjármálaáætlun var lögð fram, áform ríkisstjórnarinnar um tilfærslu ferðaþjónustu í almennt þrep virðisaukaskattsins. Við vinnu nefnda við fjármálaáætlunina bárust hátt í 200 umsagnir. Þar af kom tæplega þriðjungur frá aðilum tengdum ferðaþjónustu þar sem athugasemdir voru gerðar við þau áform að gistiþjónusta og önnur ferðaþjónustutengd starfsemi verði færð úr neðra þrepi í almennt þrep virðisaukans.

Til að gera langa sögu stutta var það mat meiri hluta fjárlaganefndar að rétt væri að taka að ákveðnu leyti undir ábendingar fjölmargra umsagnaraðila, sem og ábendingar meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem fjallaði um tekjur ríkissjóðs í fjármálaáætluninni, ábendingar um að hér væri þörf á að ráðast í frekari greiningar og athuganir.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Sanngjarnt skattumhverfi dregur úr þörf fyrir ívilnanir og afslátt af opinberum gjöldum til að auka alþjóðlega samkeppnishæfni fyrirtækja.“

Út frá þeirri stefnumörkun er og verður unnið. Það er líka rétt að nefna að líklega heyrir það almennt til undantekninga ef forsvarsmenn atvinnugreina fagna beinlínis einróma tillögum um skattahækkanir, jafnvel þótt um sé að ræða niðurfellingu ívilnana eða samræmingu á milli atvinnugreina.

Að öllu samanteknu er það niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar að beina þeim ábendingum til ríkisstjórnarinnar að nýta næstu vikur og mánuði í greiningarvinnu og frekari athuganir áður en kemur að því að leggja fram frumvarp um lagabreytingar á virðisaukaskatti. Að mínu mati liggur málið þó þannig fyrir að aðilar málsins munu nýta sumarið í slíka vinnu. Jafnframt hafa komið fram hugmyndir um aðrar leiðir til að ná markmiði ríkisstjórnarinnar um tekjuöflun, um að hægja á gríðarlegri fjölgun ferðamanna til landsins og um einföldun skattkerfisins. Líti slíkar tillögur dagsins ljós í sumar að undangengnum rannsóknum og greiningum sem að er stefnt, tillögur sem skila sömu settu markmiðum og tillögunni um virðisaukaskattsbreytinguna er ætlað að gera, og sem fjármálaáætlun byggir á, verða þær mikilvægt innlegg í umræðu og vinnu haustsins.

Ég geri fastlega ráð fyrir góðri samvinnu allra hagsmunaaðila varðandi þetta verkefni og bendi jafnframt á þá ábendingu meiri hluta fjárlaganefndar að áfram verði unnið að ítarlegri greiningu á áhrifum nefndrar virðisaukaskattsbreytingar í sumar.

Virðulegi forseti. Með þessari nálgun er að mínu mati verið að tryggja sem best að sú þinglega meðferð sem málið hefur fengið nái tilgangi sínum og að ábendingar og umsagnir þeirra fjölmörgu aðila sem lagt hafa sitt til málanna verði virtar. Þetta eru vinnubrögð sem ég vil samsama mig við.

Af öðrum málum sem ég vil tilgreina hér af því sem meiri hluti fjárlaganefndar vekur sérstaka athygli á má nefna tillögur hans um að endurskoðuð verði aðhaldskrafa á framhaldsskóla þar sem hagræðing af styttingu náms þar hefur ekki enn komið fram að fullu. Eins leggur meiri hlutinn áherslu á að þær viðbætur sem háskólastiginu voru úthlutaðar við fjárlagagerð 2017 haldi sér áfram í fjárlögum ársins 2018.

Að lokum nefni ég tillögu meiri hlutans til heilbrigðisráðherra að skoðaðir verði kostir þess að setja á laggirnar stjórn yfir starfsemi Landspítalans. Í ljósi þess lykilhlutverks sem Landspítalinn hefur í heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar og þess umfangsmikla reksturs sem þar er sinnt telur meiri hlutinn að ástæða sé til að kanna hvort það gæti verið af hinu góða að styrkja stjórn spítalans með þessum hætti. Slík stjórn, skipuð fólki með fagþekkingu annars vegar á heilbrigðisvísindum og hins vegar á stjórnun og fjármálum almennt, gæti að mínu mati verið bæði stjórnendum Landspítalans og ráðuneyti heilbrigðismála til mikils gagns og í raun mikilvægur hlekkur á milli þessara mikilvægu stoða í íslenskri heilbrigðisþjónustu.

Virðulegi forseti. Fyrir mig, sem enn er nýliði á hinu pólitíska sviði, hefur það verið vægast sagt lærdómsríkt að fara í gegnum þetta ferli, bæði hvað varðar form og efni. Þó svo að í forminu megi ýmislegt betur fara, eins og bent hefur verið á, er ljóst að margt hefur áunnist frá því að fyrsta fjármálaáætlunin var lögð fram vorið 2016. Þar hafa margir lagt hönd á plóg. Hvað varðar efnið, hina pólitísku nálgun, er þessi fjármálaáætlun lögð fram til staðfestingar á þeirri áherslu ríkisstjórnarinnar á velferð og innviðauppbyggingu sem tilgreind er í stjórnarsáttmála.