146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara með því að setja fram þessa tillögu er búið að ýta ákvörðun ferðaþjónustunnar fram í tímann um að gera einhverjar ráðstafanir til að takast á við hækkunina. Í fyrsta lagi verður það ákveðið með fjárlögum í haust. Búið er að gefa því undir fótinn að fresta því. Mér finnst ljóst vera að með tillögunni sé búið að ákveða að fresta. Og það kemur mér á óvart að þingflokksformaður Viðreisnar sé með í því þar sem formaður flokksins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að hann vilji ekki fresta. Það er óábyrgt og ekki í anda laga um opinber fjármál sem krefjast festu og gagnsæis að hringla svona á lokametrunum í afgreiðslu fjármálaáætlunar. Það er til fullt af greiningum, m.a. frá árinu 2012, og fullt af umsögnum frá þeim tíma sem hægt hefði verið að leggja í þessa (Forseti hringir.) ákvarðanatöku. Mér finnst þetta vera pólitískur leikur og ágreiningurinn innan raða Viðreisnar er átakanlegur og bitnar á stöðugleika í kringum ferðaþjónustuna.