146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerir ekki kröfur til þess að nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar jafnist á við góða skáldsögu, enda gerir það það því miður ekki, en ég geri ákveðnar kröfur um að rökin leiði að niðurstöðunni. Það er sú spurning sem ég er með. En ég ætla að nýta tækifærið, því að ég hef stuttan tíma: Hvað ræður áherslunni sem birtist í áætluninni um að skerða framlög til framhaldsskólastigsins og er hv. þingmaður sammála henni? Eins og kunnugt er og kemur fram í nefndarálitinu var því lofað þegar tekin var ákvörðun um að stytta framhaldsskólann að sú hagræðing sem styttingin skapaði myndi skilað sér til framhaldsskólanna í bættu námi. Ég leyfi mér að benda hv. þingmanni á að við erum að mennta okkar unga fólk til að taka þátt í mjög flóknum heimi. Telur hv. þingmaður ekki ástæðu til að þessi hagræðing skili sér inn í skólana? Hvernig stendur á því að þegar við skoðum fjármálaáætlunina sem var samþykkt í ágúst þá var miðað við að árið 2021 rynni ákveðin (Forseti hringir.) fjárhæð til framhaldsskóla en þegar við skoðum þessa áætlun er sú fjárhæð skert um milljarð og 440 milljónir? Það er ekki lítil skerðing frá fyrri áætlun. Hvernig er hægt að standa að slíkri skerðingu á þessar grundvallarstofnanir samfélagsins? Er hv. þingmaður virkilega sammála þeirri ráðstöfun?