146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Varðandi framlög til menntamála er það alveg rétt að þau jukust ekki alveg jafn mikið og framlög til velferðarmála. Ég get alveg staðið hér og sagt að ég hefði ósköp gjarnan viljað að hægt væri að auka framlög til flestra útgjaldaþátta, ekki síst menntunar, á pari við það sem útgjöld eru aukin um til heilbrigðis- og velferðarmála. En einhvern veginn verður að forgangsraða fjármunum. Að þessu sinni er það gert í takt við áherslur ríkisstjórnar, stjórnarsáttmála, þar sem talað var um í árdaga kosningabaráttunnar að þessir umframfjármunir færu, eins og dæmin sýna, til velferðarþjónustunnar og heilbrigðisþjónustunnar. Engu síðar er verið að auka framlög á nemanda. Meiri hluti fjárlaganefndar beinir þeirri ábendingu til ríkisstjórnarinnar að aðhaldskrafan sé afnumin á framhaldsskóla (Forseti hringir.) á meðan hagrænn ávinningur af styttingu námsins er ekki að fullu raungerður. Það er sú tillaga sem við leggjum fram. En ég bendi á að ekki er verið að draga úr framlögum til framhaldsskólanemenda.