146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson kærlega fyrir ræðuna. Þegar ég fór í gegnum nefndarálit meiri hlutans fannst mér gott að sjá að tekið var undir ýmislegt sem ég benti á í umsögnum mínum, til dæmis um mikilvægi þess að bakkað yrði frá aðhaldskröfunni gagnvart framhaldsskólastiginu. Það er gífurlega mikilvægt að svo verði gert. Það er leitt að nefndin skuli ekki hafa náð saman um að gera breytingartillögur á áætlunum hvað það varðar. Eins var talað um mikilvægi þess að menn kæmu til móts við þjóðkirkjuna og erfiða stöðu hennar. Ég fagna því svo sannarlega.

Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af því að að mínu mati er ekki tekið nægilega vel á mínu helsta áhyggjuefni sem snýr að því að það eru alls ekki nægir fjármunir og ekki er horfst í augu við hversu erfið staðan er sem snýr að móttöku hælisleitenda. Ábendingar komu frá Útlendingastofnun um að hugsanlega gæti þurft (Forseti hringir.) allt að því 7 milljarða til viðbótar til þess að geta sinnt þessum verkefnum með ásættanlegum hætti og að talan yfir fjölda umsókna frá fólki sem leitar alþjóðlegrar verndar væri langt frá því sem væri fyrirsjáanlegt að við myndum taka á móti bara á þessu ári.