146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að ræða aðeins um það sem ég held að við hv. þingmenn séum sammála um, þ.e. hvernig við stöndum að vinnu í kringum fjármálaáætlun, og fara yfir það í örstuttu máli. Raunar er ágætlega farið yfir þetta í ýmsum nefndarálitum meiri hluta og minni hluta fjárlaganefndar en ég tel mjög mikilvægt að við látum þetta ferli verða okkur lærdómsríkt. Það skiptir máli að hugað sé að framsetningu fjármálaáætlunar. Ég ætla aðeins að fara nánar yfir það og vitna í álitsgerð fjármálaráðs sem skilaði ágætri álitsgerð og átti góðan fund með fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, og síðan hvernig við vinnum þessi mál hér í þinginu. Satt best að segja hefur vinnulagið orðið til þess að vekja mig til ríkrar umhugsunar um stöðu Alþingis í þessu ferli. Það hefur komið fram, og á það var bent af hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sem talaði hér áðan, að ráðuneytin fengu vissulega aukna fjármuni til að ráða inn starfsfólk til að fylgja eftir breyttu vinnulagi við gerð fjárlaga, fjármálaáætlunar og fjármálastefnu. Það sama á ekki við um þingið. Það er mín skoðun að þingið þurfi að horfa til þess hvernig það ætlar að takast á við þetta verkefni. Þetta kallar á annars konar vinnulag og að þingmenn geti farið dýpra í þessa áætlun. Gallinn við hana, eins og hún er sett fram, er að hún er ekki gagnsæ, þótt það sé eitt af þeim grunngildum sem hún á að vera unnin út frá og þrátt fyrir að hana eigi að setja fram í þeim anda. Ég vitna þá til laga um opinber fjármál. Hún er ekki gagnsæ. Það er erfitt að fá upplýsingar sem liggja á bak við þær tölur sem áætlaðar eru fyrir hvern málaflokk og hvert svið. Það er algerlega óásættanlegt að hv. þingmenn séu í raun í myrkrinu þegar verið er að taka ákvarðanir um jafn mikilvægt mál og fjármálaáætlun.

Það er þess vegna sem ég hef verið að furða mig á því í andsvörum hvernig rökstuðningi meiri hluta hv. fjárlaganefndar er háttað. Ég tel að ýmis rök séu talin upp fyrir því að ekki eigi að samþykkja áætlunina óbreytta en niðurstaðan er sú að samþykkja eigi hana óbreytta. Mér finnst það ekki ganga upp. Ég vitna líka til orða hv. þingmanna og hæstv. ráðherra stjórnarflokkanna sem hafa tjáð sig um þessa áætlun og sagt: Þetta er bara áætlun, síðan er hægt að breyta því sem samþykkt verður í áætluninni. En hugsunin á bak við áætlunina var jú sú að við ætluðum að fara að gera áætlanir til lengri tíma þannig að stofnanir samfélagsins gætu hver fyrir sig gert áætlanir til lengri tíma, að þetta væri grundvallarplagg hverrar ríkisstjórnar sem setti niður stefnuna. Þess vegna hlýtur það að koma mér á óvart — ég tek þetta plagg alvarlega og tel að það skipti máli og að þetta sé jafnvel stærsta plagg hverrar ríkisstjórnar, þar sem áætlunin markar stefnu sína og markmið — að hlusta á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra yppta öxlum og segja: Þetta er nú bara áætlun, öllu er hægt að breyta í haust.

Við tökum þetta alvarlega. Við hv. þingmenn minni hlutans, sem unnið hafa ítarleg álit um þessa áætlun, lítum á þetta sem stefnumótun núverandi meiri hluta ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega mjög margt við þessa áætlun að athuga.

Í umsögn sem 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar, Katrín Jakobsdóttir, sem hér stendur, og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, skilaði inn við þessa áætlun kemur fram að það liggur fyrir að tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir á undanförnum árum og haldið er áfram að veikja þá í þessari áætlun. Þá vitna ég til hluta sem voru mjög umdeildir á síðasta kjörtímabili. Ég nefni stórlækkun veiðigjalda og þá ákvörðun að framlengja ekki auðlegðarskatt. Ég velti fyrir mér hvort allir séu enn jafn eindregnir stuðningsmenn þess að hafa ekki framlengt auðlegðarskattinn í ljósi þess að þegar við skoðum tölur um ójöfnuð í samfélaginu birtist hann fyrst og fremst í eignastöðu. Það eru ríkustu 20% sem eiga 90% af öllum auði í samfélaginu. Það er þar sem ójöfnuður birtist fyrst og fremst á Vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning. Það birtist í eignastöðu, í því hverjir eiga auðæfin.

Milliþrep tekjuskattskerfisins var aflagt og svo mætti áfram telja. Nú er enn ein skattalækkunin boðuð, sem er lækkun á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Og það inn í þensluástand þegar hæstv. fjármálaráðherra mætir í fjölmiðla og talar um að róttækar aðgerðir þurfi til til að gera eitthvað hvað varðar styrkingu krónunnar. Um leið er hér talað fyrir skattalækkunum inn í þensluástand. Ég efast um að sá hagfræðingur finnist sem mælir með slíkri aðgerð á þenslutímum.

Í raun finnst manni þessi tillaga — sem kannski er ekki ætlunin að samþykkja út frá rökstuðningi meiri hluta fjárlaganefndar, ég átta mig ekki á því, en tillagan er vissulega til staðar í fjármálaáætlun eins og hún kemur frá hæstv. ráðherra — vera að boða skattalækkun. Það er líka verið að boða tilfærslu þannig að ferðaþjónustan færist upp í efra þrep virðisaukaskattskerfisins. Ég kem aðeins nánar að því á eftir, síðar í ræðu minni.

Fyrst langar mig aðeins að ræða um hinar efnahagslegu forsendur. Staðreyndin er nefnilega sú að þegar teknar eru saman fjármálareglurnar sem settar voru í lögum um opinber fjármál — ég lagðist gegn þeim reglum og taldi þær allt of bindandi fyrir ríkisvaldið — og við bætist útgjaldaþakið, sem núverandi ríkisstjórn setti inn í fjármálastefnuna, og sú stefnumótun, sem hér birtist, þá liggur fyrir, og hlýtur að vekja undrun öllum þeim sem fylgjast með stjórnmálaumræðu, að það er nánast ekkert hægt að spýta í til uppbyggingar, þrátt fyrir öll þau fyrirheit sem voru gefin fyrir kosningar í haust.

Það er nánast ekkert svigrúm í því kerfi sem búið er að byggja upp til að milda áhrif neikvæðra hagsveiflna þegar þær koma. Þar af leiðandi erum við að horfa á mjög aðhaldssama stefnu sem er fjarri þeim væntingum sem gefnar voru fyrir kosningar, hvort sem litið er til heilbrigðismála, skólamála, samgöngumála og svo mætti lengi telja. Ég vil minna á að í umsögn fjármálaráðs um fjármálastefnuna var það orðað sem svo að stjórnvöld gætu hæglega lent í spennitreyju fjármálastefnunnar ef atburðarásin reyndist önnur en spár gerðu ráð fyrir.

Þegar litið er á umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun er bent á að mikil óvissa er um þjóðhagslegar og efnahagslegar forsendur. Það er bent á að einsleitni gæti í líkönum og spágerð á Íslandi. Orðrétt segir, með leyfi forseta, í áliti fjármálaráðs:

„Allir helstu aðilar hér á landi notast við líkan Seðlabankans við spágerð sína. Þetta er áhyggjuefni. Einsleit líkön leiða til einsleitra spáa og umræða um efnahagsmál verður einsleit. Slíkt eykur hættu á því að allir geri sömu mistök.“

Ég er sammála þessari gagnrýni. Ég tel að það sé algert lykilatriði að annaðhvort verði komið upp sjálfstæðri þjóðhagsstofnun, eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt til, eða einhverju slíku sekretaríeti í kringum fjármálaráð þannig að hægt verði að gera sjálfstæðar þjóðhagsáætlanir til lengri tíma eins og raunar var samþykkt þegar þingsályktunartillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar var samþykkt um að ráðast ætti í slíkar langtímaáætlanir. Það gengur ekki upp að allar spár byggi á sömu líkönum.

Í umsögn fjármálaráðs eru dregnar í efa ýmsar þær forsendur sem hæstv. fjármálaráðherra virðist gefa sér í þessari fjármálaáætlun. Fullyrt er að sparnaðarhneigð landsmanna hafi aukist varanlega. Slíkt er þó ekki rökstutt með greiningu. Einu rökin eru lýsing á þeirri þróun sem hefur orðið frá árinu 2008 þar sem dregið hefur úr einkaneyslu. Í umsögn fjármálaráðs segir að einkaneysla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sé yfirleitt um þriðjungur í vestrænum ríkjum og erfitt að sjá af hverju Íslendingar ættu að skera sig frá því til lengri tíma litið. Fjármálaráðið vitnar í erlend gögn og spyr: Af hverju eru menn að gefa sér þessar forsendur? Það eru engin svör.

Annað slíkt dæmi um óvissar forsendur er að áætlunin byggist á hagspá Hagstofu Íslands sem gerir ráð fyrir mjúkri lendingu eftir þá þenslu sem nú einkennir íslenska hagkerfið. Þar með muni það langa hagvaxtarskeið sem við höfum nú upplifað ganga vandræðalaust yfir. Í umsögn fjármálaráðs segir hins vegar, með leyfi forseta:

„Sagan kennir okkur að hörð lending er oftar en ekki raunin eftir þensluskeið á Íslandi og því æskilegt að hafa vaðið fyrir neðan sig og greina áhættuna. Að minnsta kosti væri eðlilegt að taka mið af spám og greiningum annarra greiningaraðila eins og kveðið er á um í lögum.“

Núverandi hagvaxtarskeið frá síðari hluta árs 2010 er þegar orðið hið lengsta í lýðveldissögunni. Það er óvanalegt að gefa sér að það muni standa óslitið til ársins 2022. En áætlunin byggist á því að svo verði. Um leið og eitthvert bakslag kemur í seglin er grundvöllur áætlunarinnar brostinn og ekki er gert ráð fyrir að afla nokkurra tekna því að öll útgjöld eiga jú að rúmast innan hagsveiflunnar. Þarna sjáum við svart á hvítu, í þessari ágætu umsögn óháðra aðila, að forsendur þessarar áætlunar ganga ekki upp. Mér finnst ekki nægjanlega vel á þessu tekið í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, ef ég má segja það hér.

Þá kem ég að ferðaþjónustunni sem ég boðaði að ég myndi ræða. Hér er lagt til að ferðaþjónusta verði færð úr neðra þrepi í efra þrep virðisaukaskattskerfisins og í kjölfarið verði efra þrepið lækkað; hún er sem sagt boðuð þessi skattalækkun sem ég vísaði hér til áðan. Tekjur af þessu eiga að nema 17,5 milljörðum á ársgrundvelli frá og með árinu 2019 en á móti kemur lækkun á efra þrepi sem er talin leiða til 13,5 milljarða lækkunar. Nettótekjuáhrif eiga að vera 4 milljarðar. Eðlilega var þessi breyting viðamest í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um málið. Auðvitað stingur þetta mann eftir þá miklu umræðu sem stóð hér allt síðasta kjörtímabil, um að stefnumótun skorti í ferðaþjónustu, okkar stærstu útflutningsatvinnugrein. Kallað var eftir stefnumótun allt það kjörtímabil. Sett var á laggirnar svokölluð Stjórnstöð ferðamála þar sem ætlunin var að móta hina sameiginlegu stefnu. Hún var að sjálfsögðu ekki kölluð til samráðs um þessa breytingu, það kom fram fyrir nefndinni. Bent var á að ekki lægi fyrir raunveruleg greining á áhrifum aðgerðarinnar á ferðaþjónustu, ferðamannafjölda, lengd dvalar ferðamanna, neyslu þeirra hér á landi. Það komu fram við þinglega meðferð ítrekaðar áhyggjur af því að þessi breyting gæti leitt til þess að dreifing ferðamanna um landið yrði önnur þó að það sé þó yfirlýst stefnumið stjórnvalda að dreifa ferðamönnum betur um landið og betur yfir árið.

Mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þeim áhrifum sem slík breyting hefur á verðlag, straum ferðamanna og styrkingu krónunnar er að þau séu óveruleg, það kemur fram í áætluninni. En engin greining er birt til stuðnings þeirri niðurstöðu. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan um nefndarálit meiri hlutans. Hér eru ýmis rök sett fram og svo kemur niðurstaða sem er ekki í neinum takti við rökin, eða að rökin eru sett fram en engar greiningar birtar sem styðja við rökin. Þessu er bara svona haldið fram. Auðvitað hljótum við hv. þingmenn að gera kröfu um að alvörugreiningar liggi á bak við svona vinnu. Að sjálfsögðu.

Síðan þegar áætlunin hafði verið kynnt, og það vakti líka athygli mína, var farið að tala um að þetta væri í raun tæki til að draga úr fjölgun ferðamanna. Það fannst mér líka merkilegt. Því er haldið fram í áætluninni að þetta eigi ekki að hafa nein áhrif á fjölgun ferðamanna. En eftir að áætlunin kom fram, eftir að gagnrýnin byrjaði, kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir: Ja, við erum nú að reyna að hafa stjórn á fjölgun ferðamanna. En samt sem áður stendur í áætluninni að þetta eigi ekki að hafa nein áhrif á hana. Er nema von að maður spyrji sig hvers lags vinnubrögð þetta séu.

Tíminn líður hratt í þessari ræðu þannig að það er alveg ljóst, frú forseti, að ég þarf að setja mig aftur á mælendaskrá og bið bara strax um að það verði gert. Mér liggur mikið á hjarta um þessa áætlun. Ég velti fyrir mér hvort stjórnvöld ætli sér, úr því að þessari breytingu á virðisaukaskatti er ætlað að draga úr fjölgun ferðamanna, að halda áfram að eyða fullt af peningum í markaðsstarf á sviði ferðamála til að draga hingað fleiri ferðamenn. Mér finnst ekki standa steinn yfir steini í röksemdafærslu stjórnvalda fyrir þessari breytingu. Þar með er ég ekki að segja að ég sé í prinsippinu á móti henni. En að sjálfsögðu er ég hissa, eins og aðilar ferðaþjónustunnar, eftir að hafa verið á fundum með hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem lofuðu því, að minnsta kosti frá Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn, að ekki yrði ráðist í slíkar breytingar nema að gríðarlega umfangsmiklu samráði höfðu við alla aðila. Að sjálfsögðu verður maður þá hissa á að sjá slíka breytingu lagða til.

En svo virðist vera sem meiri hluti fjárlaganefndar sé á harðahlaupum frá þeim áherslum sem lagðar eru í áætluninni því að þau leggja til að þetta verði endurskoðað, að komugjöld verði tekin upp. Hæstv. forsætisráðherra kemur hér upp í gær og segir að kannski sé ástæða til að bíða með þetta og skoða aðeins betur og hæstv. fjármálaráðherra situr hér einn eftir. Eins og sagt hefur verið með mjög snjöllum hætti nú þegar hér í þinginu.

Það er líka áhugavert, og kemur fram í umsögn fjármálaráðs, að ætlunin er að vinna þessa áætlun samkvæmt ákveðnum grunngildum. Ég nefndi hið mikla grunngildi gagnsæi. Fjármálaráð ræðir talsvert um það að ýmis önnur grunngildi séu líka hunsuð í þessari áætlun. Til að mynda er bent á að það að ráðast í slíkar skattbreytingar með skömmum fyrirvara og samráðslaust geti ekki verið til marks um „varfærni“ sem er eitt af þessum frægu grunngildum. Annað grunngildi er líka stöðugleikinn. Fjármálaráð segir að í ljósi þess að þessi breyting sé lögð til á sama tíma og boðuð séu ný bílastæðagjöld, hækkun gistináttagjalds og að stjórnvöld sitji hjá með hendur í skauti og horfi upp á landeigendur rukka ólöglega inn á náttúruverndarsvæði, og hreyfi hvorki legg né lið til að aðhafast í þeirri ólöglegu gjaldtöku, sé ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að þessi áætlun uppfylli grunngildið um stöðugleika.

Fjármálaráð telur að skattaleg meðferð ferðaþjónustu eigi að vera sambærileg við aðrar atvinnugreinar. Það er rétt að halda því til haga hér. En það setur spurningarmerki við tímasetninguna og þá tilhögun sem ég gagnrýndi hér í upphafi að lækka efra virðisaukaskattsþrepið beint í kjölfarið, sem er gríðarlega óskynsamleg aðgerð á þenslutímum í samfélaginu, beinlínis til þess fallin að ýta undir þenslu en ekki draga úr henni, og sú aðgerð flytji líka skattheimtuna af innlendri eftirspurn. Svo að vitnað sé beint í umsögn ráðsins, með leyfi forseta:

„Sú sértæka aðgerð er líkleg til að ganga gegn grunngildinu um stöðugleika við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja.“

Ég vil nota tækifærið hér til að fagna hækkun kolefnisgjalds, svo að maður haldi því til haga sem maður er sammála. Vissulega þarf þetta gjald að vera mun hærra en nú er til þess að skila tilætluðum árangri í að stuðla að samdrætti í losun kolefnis. Ég lýsi þó ákveðnum áhyggjum af því að stefnumótun um græna skatta virðist vera mjög stutt á veg komin. Það hefur heldur ekki neitt samráð, virðist vera, verið haft um þessa hækkun frekar en aðrar skattbreytingar. En ég er sammála þessari stefnu og vil taka það fram hér.

Rauður þráður í umsögn fjármálaráðs er að frekari gögn og greiningar vanti. Á það er bent, þegar kemur að umsögn um eignir og skuldir, að sundurliðuð gögn liggi ekki fyrir. Því er ekki hægt að fullyrða að stefna um þróun skulda skaði ekki sjálfbærni eða setji það gildi úr jafnvægi. Enn og aftur: Grunngildi sem eiga að lita alla þessa áætlun. Ekki liggur fyrir hvernig eigi að viðhalda gæðum eignasafns hins opinbera. Fjármál sveitarfélaga eru enn einn óvissuþáttur í fjármálaáætlun. Og enn og aftur er þar óskað eftir frekari greiningum og spurt hvort hin endanlegu afkomumarkmið sem á að mæla muni á endanum reynast á ábyrgð ríkisins.

Gagnrýnt er í umsögn fjármálaráðs að algert ósamræmi sé í þeirri stefnumótun sem birtist í fjármálaáætlun og öðrum þeim stefnum sem við erum að samþykkja hér á Alþingi. Á það hefur verið bent að fjármálaáætlun sé dæmi um stefnumótun sem fari að ofan og niður en aðrar stefnur séu fremur unnar af botni og upp, ef svo má að orði komast. Þessar stefnur fari hreint ekki saman. Nærtækasta dæmið er samgönguáætlun sem er ekki í neinum takti við fjármálaáætlun.

Ég hef ekki komist til að ræða skiptingu útgjalda eins og hún er hér en vil að lokum segja að þessi fjármálaáætlun byggist á því að hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu fari lækkandi ár frá ári út áætlunartímann og endi undir meðaltali síðastliðinna 25 ára. Það, frú forseti, segir meira en mörg orð um þá stefnu sem hér er boðuð. Þessi fjármálaáætlun er ekki áætlun um að byggja upp, byggja upp í menntakerfinu, byggja upp í heilbrigðiskerfinu, byggja upp í velferðarsamfélaginu, byggja upp innviðina, innviðina sem voru orðið í síðustu kosningabaráttu og allir flokkar höfðu stór orð um að byggja ætti upp. Nei, núverandi ríkisstjórn er ekki reiðubúin til að afla tekna með sanngjörnum hætti til að standa undir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu sem þarf að ráðast í. Núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að hlusta á þá 86.500 Íslendinga sem skrifuðu undir skýra áskorun til okkar stjórnmálamanna um að hlutfall til heilbrigðismála af vergri landsframleiðslu ætti að fara upp á við. Núverandi ríkisstjórn er ekki til í að standa við loforð síðustu ríkisstjórnar um að hagræðing sem yrði í framhaldsskólakerfinu ætti að skila sér inn í skólana til að bæta skólastarfið. Núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að standa við (Forseti hringir.) samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs um fjármögnun háskóla. Núverandi ríkisstjórn er með framtíðarsýn sem ég kvitta ekki upp á í þessari fjármálaáætlun og ég vona að hún verði felld hér á þinginu.