146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem ég hef verið að furða mig á við lestur nefndarálits meiri hlutans. Vinnulag er gagnrýnt, bæði af hálfu fjármálaráðuneytis og Alþingis. Ítrekað bent á að tíminn hafi verið of skammur, að það sé í raun og veru ekkert hægt að gera til þess að sinna þessum málum almennilega. Tekið er undir gagnrýni um að hagspárgerð sé einsleit, að hún byggist á einsleitum líkönum.

Ef ég ætti að taka þetta nefndarálit út frá glæpasögunni, sem hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um, myndi ég segja að þetta kallaðist, með leyfi forseta, þó að þingmálið sé íslenska, svokallað „red herring“, eða falskar vísbendingar. Þetta nefndarálit er fullt af fölskum vísbendingum sem leiða til niðurstöðu þvert á það sem lesandi heldur út frá lestri nefndarálitsins. Ég hefði satt að segja talið, eftir að hafa lesið nefndarálitið, að niðurstaðan væri augljóslega sú að meiri hluti fjárlaganefndar legði til umtalsverðar breytingar eða hreinlega að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnar.