146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur kærlega fyrir mjög skemmtilega og innihaldsríka ræðu og er hér með nokkrar spurningar. Það sem ég stoppa svolítið við, í fyrsta lagi, er að í umsögn meiri hlutans er talað um að skammur tími hafi verið til að vinna þessa fjármálaáætlun; það er svona vælutónn í meiri hlutanum um það. Ég verð að segja að það kemur mér töluvert á óvart. Ég veit ekki betur en að meginþorri þeirra þingmanna sem sitja í ríkisstjórn hafi verið í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, hafi unnið lögin um opinber fjármál og komið að vinnslu síðustu fjármálaáætlunar sem var lögð fram. Er það ekki mat þingmannsins að nægur tími og næg þekking hefði átta að vera innan stjórnarmeirihlutans til að leggja fram vandaðra plagg en það sem við ræðum hér?