146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir svarið. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að það er afar mikið ógagnsæi í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem við ræðum hér. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir jafnframt um að í nýafstaðinni kosningabaráttu hafi allir flokkar talað um mikilvægi innviðauppbyggingar. En maður sér þess ekki stað í þessari ríkisfjármálaáætlun að fara eigi í þá innviðauppbyggingu sem talað var um.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver afstaða hennar sé til þess sem kemur fram í umsögn okkar hv. þingmanna Framsóknarflokksins um að það þyrfti jafnvel að vera 1% aðhaldskrafa í staðinn fyrir 1,5% en það gæti gefið 10–12 milljarða aukalega í ríkissjóð. Ég spyr hvernig henni lítist á að örlítið yrði hægt á niðurgreiðslu skulda, sem er þó afar mikilvæg, til þess að við höfum svigrúm til innviðauppbyggingar sem svo sannarlega er þörf á.