146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Megináherslan í málflutningi okkar í Vinstri grænum hefur verið að styrkja tekjustofnana og að það sé eðlilegt að við gerum ráð fyrir tilteknum afgangi. Ríkissjóður er ekki excel-skjal. Ríkissjóður snýst um samfélagið sem við byggjum. Alveg eins og í hefðbundnu heimilisbókhaldi leggur maður fyrir þegar maður getur en maður sparar það ekki að kaupa mat handa börnunum.

Okkar áætlanir gera ráð fyrir eðlilegum afgangi á ríkissjóði og að við styrkjum tekjustofnana en að sjálfsögðu þurfum við að meta það út frá þörfinni. Hv. þingmaður spyr líka um niðurgreiðslu á skuldum. Ég velti því upp, og við í VG: Byggir þessi áætlun á traustum grunni? Þarna er líka gert ráð fyrir umtalsverðri sölu eigna til að hraða niðurgreiðslu skulda, sem miklar blikur eru á lofti um hvort það gangi yfir höfuð eftir. Ég held að við þurfum líka að vera dálítið raunsæ í því. (Forseti hringir.) Það dugir ekki bara að setja góð og göfug markmið á blað. Við þurfum líka að vera raunsæ í því hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum.