146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þá komum við að því sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. Þessi áætlun segir ekkert um það sem á að gera til þess að þó verði hægt að ráðast í einhverja uppbyggingu. Það er athyglisvert að hlusta á hæstv. samgönguráðherra sem talar eins og honum sé nauðugur einn kostur að fara að setja á veggjöld. Honum er það ekkert nauðugur kostur. Það eru pólitískar ákvarðanir á bak við það sem birtast í fjármálaáætluninni þar sem ekki má hækka skatta, það á meira að segja að lækka þá inn í þensluna. Í staðinn á að fara að skattleggja þá sem keyra um vegina með gjaldtöku. Þetta eru nákvæmlega sömu rökin og við höfum áður heyrt með gjaldtöku í öðrum geirum, varðandi sjúklinga, í skólamálum og hvað það er.

Hér er verið að taka pólitískar ákvarðanir. Ég nefndi áðan skólamálin. Það er villandi framsetning þegar við horfum á framlög til háskólanna að þar er í fyrsta lagi einkum um að ræða byggingu, raunaukningin er mjög lítil. Ég lýsi (Forseti hringir.) áhyggjum af því hversu mikið metnaðarleysi felst í því að stefna beinlínis að því að fækka háskólanemum og færa málefni Vísinda- og tækniráðs undan forsætisráðuneytinu því að vísindi eiga greinilega ekki að vera miðlæg í því Íslandi sem þessi ríkisstjórn vill byggja til framtíðar. Það eru skilaboðin sem verið er að senda.