146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ég ætla á þeim tíma sem ég hef í ræðu að reifa örlítið þá umsögn sem 2. minni hluti velferðarnefndar skilaði um ríkisfjármálaáætlunina eftir efnislega vinnslu velferðarnefndar um málið. Sú umsögn byrjaði á örlitlum almennum inngangi þar sem ég, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, sem skrifaði undir þetta plagg sem fulltrúi 2. minni hluta, rita:

Annar minni hluti velferðarnefndar tekur undir að mörg góð markmið séu sett fram í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022. Hins vegar vantar gagnsæi í áætlunina og nær ómögulegt sé að átta sig á hvaða fjármagn er áætlað til þeirra markmiða sem sett eru fram. Einnig er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði víða blandað saman og gefur það mjög skakka mynd af stöðu mála.

Annar minni hluti gagnrýnir þá miklu aðhaldskröfu sem sett er fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 en nú er aðhaldskrafan 1,5%. Í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins var lagt til að aðhaldskrafan væri 1% afgangur af fjárlögum og leggur 2. minni hluti það því til að aðhaldskrafan verði lækkuð um 0,5%. Samkvæmt greiningum okkar ætti það að geta skilað ríkissjóði um 10–12 milljörðum kr. aukalega á ári.

Þetta leggjum við í 2. minni hluta velferðarnefndar áherslu á því að eins og fram hefur komið í ræðum í dag var það mikil áhersla hjá öllum flokkum sem nú eiga sæti á Alþingi í nýafstaðinni kosningabaráttu að auka við uppbyggingu innviða í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, samgöngum og víða annars staðar.

Síðan eru mjög margir málaflokkar undir í þeim ríkisfjármálahluta sem tilheyrir velferðarnefnd. Ég veit ekki hvað ég næ að fara yfir en við skulum alla vega byrja. Fyrst er það sjúkrahúsþjónustan. Undir þetta málefnasvið falla sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, almenn sjúkrahúsþjónusta og erlend sjúkrahúsþjónusta.

Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðsins aukist um 23%, ef ég man rétt. Inni í þeirri upphæð er gert ráð fyrir allnokkrum kostnaði við byggingu á nýjum Landspítala en stór hluti af byggingu hans fer fram á tímabili ríkisfjármálaáætlunarinnar. Inni í þeirri upphæð eru jafnframt útgjöld til tækjakaupa, átak til að stytta biðlista og mönnun á spítalanum. Auk þessa er sett fjármagn til reksturs á jáeindaskanna, göngudeildar BUGL, brjóstamiðstöðvar og rekstur útskriftardeildar fyrir aldraða. Þetta eru afar góð og göfug markmið og flott verkefni sem lagt er til að farið verði í. En eins og ég hef komið að í ræðu minni er stofnkostnaði og rekstrarkostnaði blandað saman. Það er ekki gagnsæi, sérstaklega ekki í þeim hluta sem snýr að heilbrigðismálunum. Þar er mjög erfitt að greina hvernig eigi að ná þessum markmiðum.

Í umsögn Landspítala um fjármálaáætlun kemur fram að það vanti um 10 milljarða kr. til rekstrar og nauðsynlegra tækjakaupa og annars stofnkostnaðar á spítalanum. Þar er miðað við mat Landspítala á uppsafnaðri viðbótarfjárþörf spítalans sem velferðarráðuneytið kallaði eftir þegar fjármálaáætlunin var í vinnslu innan ráðuneytisins.

Ef umrædd fjármálaáætlun verður samþykkt óbreytt telja forsvarsmenn Landspítala að skera þurfi niður kostnað á innlendum sjúkrahúsum um u.þ.b. 5 milljarða kr. á tímabili áætlunarinnar miðað við ný verkefni sem tilgreind eru í áætluninni en óbreytta starfsemi að öðru leyti. Samkvæmt forsvarsmönnum Landspítala þýðir þetta að það viðbótarfjármagn sem lagt er til í áætluninni virðist að verulegu leyti fengið með því að fella niður fjármögnun ýmissa verkefna sem nú þegar eru til staðar og verða áfram til staðar. Auk þessa eru sum þessara nýju verkefna sem ríkisfjármálaáætlunin felur í sér aðeins fjármögnuð að hluta. Má þar m.a. nefna að hvergi er gert ráð fyrir tækjakaupum vegna nýbygginga við Hringbraut né nauðsynlegri endurgerð á eldri húsum spítalans. Hvort tveggja er forsenda þess að nýr meðferðarkjarni og rannsóknarhús verði tilbúin árið 2023 eins og lögð er áhersla á í fjármálaáætluninni. Nú hef ég ekki fengið þær tölur staðfestar sem við fengum upplýsingar um, að það vanti um 12–13 milljarða til að ljúka byggingu á nýjum Landspítala og um 7 milljarða til að ljúka endurbótum á gömlu húsnæði. En maður er verulega hugsi ef það er staðan að 13 milljarða vanti í að klára spítalann og 7 milljarða vanti til að ljúka endurbótum á gömlu húsnæði við Hringbraut.

Síðan er það Sjúkrahúsið á Akureyri. Í umsögn þeirra kemur fram að takmörkuð raunaukning sé á framlögum til að mæta þörf fyrir aukna þjónustu og nauðsynlega uppbyggingu á þjónustu innan sjúkrahúsanna. Samkvæmt umsögn þeirra er raunaukning til málefnasviðs 23, þ.e. sjúkrahúsþjónusta sem við ræðum hér, aðeins 338 millj. kr. á tímabili áætlunarinnar. Inni í þeirri upphæð sé innifalin aukning til rekstrar og stofnkostnaðar og því vandséð hvernig komið verði til móts við aukningu í þjónustu og þróun sjúkrahússtarfseminnar.

Ég verð að segja að það er mjög alvarlegt þegar Alþingi fær ekki upplýsingar um hvernig ákveðin markmið með þessari áætlun eru fjármögnuð.

Í umsögn frá Sjúkrahúsinu á Akureyri kemur fram að árleg þörf á næstu árum, miðað við sambærilega aukningu á starfsemi spítalans og undanfarin fimm ár, sé á bilinu 3–4%. Þar af sé árlegur viðbótarrekstrarkostnaður vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu ríflega 370 milljónir. Má þar m.a. nefna rekstur skurðdeildarþjónustu, göngudeildarþjónustu og geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga. Einnig má nefna átak til að fjölga læknum og fjármögnun kjarasamninga.

Við í Framsóknarflokknum, sem erum 2. minni hluti velferðarnefndar, tökum undir áhyggjur forsvarsmanna Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri um vanfjármögnun til málefnasviðsins sjúkrahúsþjónustu og gagnrýnum harkalega það mikla ógagnsæi sem þessi ríkisfjármálaáætlun felur í sér og einnig að stofn- og rekstrarkostnaði sé blandað saman. Það gefur afar skakka mynd af stöðu mála.

Við höfum orðið fyrir vonbrigðum með hversu lítil raunaukning er á fjármunum inn í málefnasviðið. Við leggjum mikla áherslu á að fjárframlög til málaflokksins verði endurskoðuð til að koma til móts við umsagnir fagaðila. Okkur finnst vandséð miðað við það fjármagn sem lagt er til málaflokksins að ríkisstjórninni takist að létta álagi af starfsfólki spítalanna og bæta aðbúnað starfsfólks og sjúklinga. Það er skoðun 2. minni hluta velferðarnefndar að þetta séu mikil vonbrigði miðað við stefnu ríkisstjórnarflokkanna í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Tíminn líður hratt og ég er búin með eitt málefnasvið af mörgum innan velferðarnefndar. Mér sýnist strax stefna í að maður þurfi að fara í aðra ræðu á eftir. En það er best að nýta alla vega þann tíma sem eftir er. Það er þá heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Þarna er auðvitað heilsugæslan okkar, þarna er sérfræðiþjónusta og hjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun og sjúkraflutningar. Þarna komum við aftur að sama málinu. Samkvæmt fjármálaætlun er gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðsins aukist um 11,5 milljarða kr. á gildistíma áætlunarinnar. Þar eru 2 milljarðar kr. vegna samnings við sérfræðilækna, kostnaður við að draga enn frekar úr greiðsluþátttöku sjúklinga er rúmir 3 milljarðar kr. Síðan eru markmiðin góð um að efla heilsugæslu í landinu, fjölga sálfræðingum og geðheilsuteymum og styrkja þverfaglega þjónustu heilsugæslunnar.

Við komum aftur að því að hér er rekstrarkostnaði og stofnkostnaði blandað saman. Hér á að fara í uppbyggingu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu þannig að sú aukning sem talin er í prósentum til þessa málaflokks inniheldur byggingu á heilsugæslustöðvum og að setja þær á fót. Í umsögn okkar Framsóknarmanna um þetta málefnasvið kemur fram að við verðum að rifja upp það sem við unnum m.a. að á síðasta kjörtímabili. Við komum aðeins inn á það hér.

Á síðasta kjörtímabili náðist gríðarlega mikilvægur áfangi í þverpólitískri sátt innan velferðarnefndar þingsins um að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Sáttin sem náðist í hv. velferðarnefnd Alþingis snerist um 50.000 kr. hámarksþak fyrir hinn almenna borgara en rúmar 33.000 kr. fyrir börn, aldraða og öryrkja. Þegar þessi lög taka síðan gildi 1. maí 2017, fyrir um að verða mánuði síðan, standast ekki samþykktir þingsins og það finnst okkur með öllu óásættanlegt. Ný lög eru á þann veg að hámarksþakið geti orðið í ákveðnum tilvikum um 70.000 kr. en 46.000 kr. á ári fyrir börn, aldraða og öryrkja. 2. minni hluti velferðarnefndar leggur áherslu á að þetta eru ekki þær upphæðir sem þverpólitísk sátt náðist um á síðasta kjörtímabili og leggur því mikla áherslu á að hámarksþak sjúkratryggðra í heilbrigðiskerfinu verði til samræmis við þverpólitíska sátt velferðarnefndar og samþykktir Alþingis sumarið 2016.

Áður en ég segi meira varðandi þetta: Síðan voru fjárlög samþykkt, og samþykkt í nokkurs konar sátt, þar sem allir voru svona hæfilega óánægðir eða ánægðir með það sem þar náðist fram. Þetta var m.a. til þess, og það var talað um það í ræðum, að ný ríkisstjórn yrði að bregðast við þar sem vantaði fjármagn.

Við í Framsóknarflokknum leggjum áherslu á að á árinu 2018 verði næstu skref stigin í átt að betra greiðsluþátttökukerfi. Við leggjum mjög mikla áherslu á að gerð verði tímasett og raunhæf áætlun á gildistíma ríkisfjármálaáætlunar um hvernig tannlækningar, sálfræðikostnaður og aukinn stuðningur vegna ferðakostnaðar sjúklinga verði felldur undir greiðsluþátttökukerfið. Við leggjum einnig mikla áherslu á að tímasett verði hvenær greiðsluþátttökukerfi lyfja- og heilbrigðiskostnaðar renni saman í eitt sanngjarnara greiðsluþátttökukerfi. Mikilvægt er að allar þessar aðgerðir séu kostnaðargreindar og að fullu fjármagnaðar.

Ef við horfum í ríkisfjármálaáætlunina kemur fram að það eru þarna rúmir 3 milljarðar, sem er vel, en það kemur ekkert fram um hvernig eigi að nýta þá fjármuni. Það á að sjá hvernig reynsla af innleiðingu nýs kerfis gengur fyrir sig en það er mjög mikilvægt að við fáum að sjá hver næstu skref eru.

Síðan kemur fram í umsögn okkar Framsóknarmanna í velferðarnefnd að samkvæmt nýjum lögum um sjúkratryggingar og þjónustustýringu er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Í efnislegri vinnslu málsins hjá velferðarnefnd síðasta sumar komu upp áhyggjur um hvort heilsugæslan væri tilbúin undir þetta veigamikla hlutverk, upp á mönnun og þjónustu að gera. Við vinnslu málsins var ákveðið að leggja aukafjármagn, 300–400 milljónir, til heilsugæslunnar til að styrkja hana í þessu hlutverki og var það gert. Hins vegar þarf að gera enn betur í fjármögnun til heilsugæslunnar ef þetta nýja hlutverk hennar á að ganga upp. 2. minni hluti leggur mikla áherslu á að horft sé til heilsugæslunnar á landsvísu og hvernig eigi að efla hana upp á menntun og mönnun á heilbrigðisstarfsfólki innan heilsugæslunnar.

Við höfum líklega öll orðið vör við að það snýst kannski ekki allt um fjármagn innan heilsugæslunnar heldur snýst þetta líka, ef maður horfir á landsbyggðina, um að oft er erfitt að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa sem er tilbúið til að starfa án þess að vera verktakar og festa sig þar. Sem hvati að því að fá fólk sem er tilbúið til að festa sig sem lækna eða heilbrigðisstarfsfólk leggjum við til að skoðað verði hvatakerfi í gegnum námslánakerfið, að horft verði á að t.d. heilbrigðisstarfsfólk sem ræður sig til starfa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni geti fengið afslátt af námslánum festi það sig í X langan tíma, til þess að reyna að manna betur þau svæði þar sem skortur er á fólki.

Í þessum hluta eins og í sjúkrahúsþjónustuhlutanum gagnrýnum við harkalega að stofnkostnaði og rekstrarkostnaði á málasviði heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa sé blandað saman. Það gefi skakka mynd af stöðu mála. Eins og ég nefndi áðan er m.a. bygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu blandað saman við rekstrarkostnað þessara heilbrigðisstofnana.

Næst er það hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta, málefnasvið 25. Undir þetta falla hjúkrunar- og dvalarrými. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að framlög til málefnasviðsins aukist um 4,9 milljarða og að reist verði fimm ný hjúkrunarheimili á gildistíma áætlunarinnar. Það er mjög vel. Á bls. 68 í ríkisfjármálaáætluninni kemur fram að þetta verði samtals 319 rými, þar af 261 ný, en á bls. 306 í sömu áætlun kemur fram að fjölga eigi hjúkrunarrýmum um 292. Hér er ekki samræmi innan sömu áætlunar og það er óásættanlegt að misvísandi skilaboð séu um hvert skuli stefna. Við teljum að sama hvor talan er rétt sé það fjarri því að mæta eftirspurn á næstu árum, m.a. vegna fjölgunar aldraðra og þeim fráflæðisvanda sem er til staðar. Við hvetjum til þess að þetta verði endurskoðað.

Einnig kallar 2. minni hluti eftir upplýsingum um hvernig þeim 700 milljónum sem samþykktar voru í fjárlögum Alþingis fyrir árið 2017 hefur verið skipt eða eigi að skipta niður á dvalar- og hjúkrunarheimili landsins og ítrekar mikilvægi þess að Alþingi fái slíkar upplýsingar. Við leggjum áherslu á að horft sé til umönnunarþarfar á dvalar- og hjúkrunarheimilum og þau fái greiðslur í samræmi við þá þjónustu sem þau veita. Þarna eigum við við það að við erum með gríðarlega mörg heimili í landinu þar sem hjúkrunarþörfin er mikil og þau eru með mikið af hjúkrunarrýmum og sinna einstaklingum sem eru með hjúkrunarrými en fá aðeins greitt fyrir dvalarrými. Það er mjög mikilvægt að það sé áætlun um hvernig eigi að vinna í því að koma til móts við þá stöðu heimilanna.

Ég ætla að nota þær tvær mínútur sem eftir eru í að ræða þörf á innviðauppbyggingu í landinu. Hún snýr ekki eingöngu að heilbrigðisþjónustunni heldur samgöngukerfinu, menntakerfinu, heilbrigðishlutanum, velferðarhlutanum og ýmsum öðrum þáttum. Eins og við höfum komið inn á, hv. þingmenn sem höfum talað, þá töluðu allir flokkar í aðdraganda kosninga um að mikil þörf væri á að bregðast við þessari innviðauppbyggingu.

Eins og ég sagði í upphafi ræðunnar teljum við Framsóknarmenn þann ramma of þröngan sem gefinn er til að bregðast við þeirri þörf sem er. Þess vegna leggjum við til að aðhaldskrafan verði minni en hún er, verði lækkuð um hálft prósent, sem á að geta skilað okkur auknum tekjum. Við leggjum jafnframt til að skoðað verði hvort hægt sé að hægja á niðurgreiðslu skulda og gefa þá frekar í innviðauppbygginguna í landinu. Það er svo sannarlega þörf á. Það sjáum við öll.

Eins og ég sagði í byrjun eru mörg mjög góð markmið sett fram en það er erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvernig það á að fjármagna þau. Ef ég tala fyrir okkur, eða mig, sem á sæti í hv. velferðarnefnd Alþingis, er ógagnsæið sérstaklega í þeim hluta sem snýr að heilbrigðismálum. Það er þó aðeins meira sundurliðað sem snýr að velferðarráðuneytinu. Það var kallað eftir upplýsingum, betri sundurliðun um heilbrigðissviðið, en þær fengust því miður ekki. Í lokaorðum 2. minni hluta velferðarnefndar er lagt til að ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar verði hafnað. Auka þarf fjármagn til mikilvægrar innviðauppbyggingar eins og fjallað hefur verið um í þessari greinargerð. Líkt og ég sagði fyrr í ræðu minni hef ég eingöngu náð að fara yfir um 1/3 af umsögninni sem ég skilaði sem hv. þingmaður í velferðarnefnd og verð að koma í aðra ræðu síðar til að klára að gera grein fyrir þeim atriðum.