146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:44]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. Samfylkingarþingmanni, Loga Einarssyni, fyrir andsvarið. Jú, það er rétt að í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021 er mjög fast kveðið á um að rekstrarsparnaður við styttinguna eigi að haldast inni í kerfinu til að efla menntaskólana. Vegna orða um gríðarlegan forgang í heilbrigðismálin vil ég segja: Það kemur alveg fram í ríkisfjármálaáætlun, þannig að ég sé sanngjörn, að í prósentum talið er mjög mikil aukning í heilbrigðismálin. En þarna er verið að blanda saman stofnkostnaði og rekstrarkostnaði. Þarna er verið að blanda saman byggingu á húsnæði og rekstri. Kannski að verið sé að nota sparnaðinn úr menntaskólunum og framhaldsskólunum í að byggja heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, ég veit það ekki. En það fer svo sannarlega ekki í rekstrarkostnað.