146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta áhugavert því að 8,8% duga ekki fyrir launahækkunum, svo að það sé sagt hreint út. Við erum því að glíma við niðurskurð fyrir utan launahækkanir í þessu. Einnig er gríðarleg aukning vegna lyfja- og lækniskostnaðar. Ég er aðeins að reyna að átta mig á umfanginu þar. Aukningin þar er til þess að koma í veg fyrir það sem við setjum í fjáraukann, af því að við höfum alltaf vanmetið kostnaðinn sem er þar. En kostnaðurinn í lok þessa tímabils er kominn upp í 1/4 af kostnaði við rekstur sjúkrahúsa eða helming af rekstri allra heilsugæslustöðva. Maður verður því að spyrja sig aftur: Er þetta nóg miðað við að gengið hefur styrkst um rúm 10% frá því að fjármálaáætlun var lögð fram? Það ætti að vera rosalega gott til að kaupa lyf og svoleiðis, ætti að vera mjög jákvætt fyrir okkur, en einhvern veginn hefur maður ekki von um að slíkt sterkt gengi haldist. Það getur því orðið gríðarlegur kostnaður nákvæmlega á þessu málefnasviði.