146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða ríkisfjármálaáætlun til fimm ára. Við erum í miðju hagvaxtarskeiði en engu að síður er hagstjórnin mjög snúin. Við erum að koma upp úr öldudal, en margt fólk og margar stofnanir eru enn mjög neðarlega í brekkunni og eiga langa og erfiða för fyrir höndum áður en þær komast upp á flatlendið. Við þurfum að hjálpa öllum upp; við megum ekki skilja neinn eftir. Á sama tíma þurfum við að ástunda ábyrga efnahagsstjórn, leggja fyrir, kljást við háa vexti og gríðarlegar gengissveiflur. Halda þarf áfram að bæta kjör og kaup almennings og mikið hefur verið talað um að hér þurfi að þróast vinnumarkaðslíkan að norrænni fyrirmynd. Það eru ekki bara við sem horfum öfundaraugum á Norðurlandamódelið sem jafnaðarmenn þar hafa kannski fyrst og fremst byggt upp heldur gera menn það um allan heim. Þetta kerfi byggir á þremur stoðum, í fyrsta lagi þríhliða kjarasamningum á milli vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, í öðru lagi ábyrgri efnahagsstjórn og í þriðja lagi félagslegum stöðugleika; velferðarstoð sem tryggir öllum jöfn tækifæri. Maður hefði haldið að um þessi markmið væri nokkuð víðtæk sátt og það væru kjöraðstæður til að tryggja þessar stoðir nú á fordæmalausu hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar. Nú er þetta ekki ósvipað eldhúskolli sem hvílir á þremur fótum, ef ein stoðin fellur þá fellur líkanið um sjálft sig.

Margoft hefur verið bent á það af stéttarfélögum og fleirum að mikið skorti upp á þennan félagslega stöðugleika og að félagslega stoðin væri ekki nógu sterk, a.m.k. í samanburði við hin Norðurlöndin. Fyrir kosningar töluðu líka allir flokkar á þennan veg, enda ekkert skrýtið. Fólki rann til rifja að ekki var nógu vel hlúð að grunnstoðum á uppgangstímum. Gæðum var ekki réttlátt skipt og ekki nógu vel búið um þá sem lakast standa. Þrátt fyrir allar okkar auðlindir og ótal möguleika höfum við ekki getað nýtt tækifærin til að standa jafnfætis nágrönnum okkar á Norðurlöndum.

Eftir loforðaflauminn fyrir kosningar biðu því margir spenntir eftir þessu plaggi, en því miður voru það mikil vonbrigði. Félagslegur stöðugleiki á enn undir högg að sækja. Allt of lítil innspýting er í vanfjármagnað heilbrigðiskerfi og áfram verðum við hálfdrættingar á við Norðurlöndin þegar kemur að framlögum á hvern háskólanema. Þá mun allt of lítið fé renna til samgöngumála sem leiðir til þess að innviðir munu halda áfram að grotna niður. Engin skýr fyrirheit eru um að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa. Í dag étur sívaxandi húsnæðiskostnaður upp allan ávinning allt of margra af bættu efnahagsástandi. Einstaklingar og fjölskyldur berjast við að draga fram lífið á allt of lágum launum á rándýrum og ótryggum húsnæðismarkaði. Fólk þarf að velja hvort það borgar reikninga, veitir börnum sínum möguleika á að stunda tómstundir eða jafnvel að sækja sjálfu sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Afleiðingar fátæktar, frú forseti, eru öllum kunnar; óöryggi, vanvirkni, félagsleg útskúfun, skömm og í versta falli vannæring.

Nú er það sem betur fer þannig að flest okkar höfum það bærilegt og lífskjör margra okkar hafa vissulega batnað mikið á síðustu árum, en lífið er hvorki vísitala eða meðaltöl, og eitt fátækt barn er einu of mikið í auðugu litlu landi eins og Íslandi. Undir það tók hæstv. félagsmálaráðherra Þorsteinn Víglundsson í sérstakri umræðu um fátækt. Þar fullyrti hann meira að segja að það yrði ekki tiltökumál að ná flokkunum saman um aðgerðir. Það væri gott ef svo væri, en því miður er staðreyndin allt önnur. Ríkisstjórnin hyggst nefnilega ekki beita skattkerfinu til að jafna kjör fólksins í landinu. Það á ekki að skerpa á þrepaskiptingu skattkerfisins, ekki leggja á hátekju- og auðlegðarskatt og ríkisstjórnin hirðir ekki um að sækja aura af miklum takmörkuðum auðlindum landsins. Hún sleppir með öðrum orðum tekjuöflun upp á 10 milljarða sem myndu auðveldlega nægja til þess að bæta þá hluti sem ég nefndi að ofan.

Það er ekki nóg að flokkarnir séu sammála fyrir kosningar ef þeir henda svo kosningaloforðunum jafnharðan í ruslið þegar úrslit liggja fyrir. Það er ekki boðlegt að flokkar sem gefa sig út fyrir að vera mjúkir velferðarflokkar fyrir kosningar breytist síðan í stæka hægri flokka eftir það. Það gerðist í janúar þegar Viðreisn og Björt framtíð köstuðu grímunni og gengu til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn (SJS: Umskiptingar.) — umskiptingar já. Reyndar voru Sjálfstæðismenn líka orðnir býsna miðjusæknir þegar fór að líða á haustið. Formaður Bjartrar framtíðar hefur sér það til málsbóta að hann sagðist hafa fórnað sér til að leysa stjórnarkreppu, en situr í staðinn í heilbrigðisráðuneytinu og ræður ekki við að fjármagna kerfið sem hann ætlaði að berjast svo ötullega fyrir fyrir kosningar.

Önnur stoð hins norræna líkans er stöðug og ábyrg efnahagsstjórn. Þetta er einnig á hverjum tíma einhver stærsta ákvörðun hverrar ríkisstjórnar, ekki síst á Íslandi þar sem við þurfum að glíma við sveiflukennda íslenska krónu og ofurháa vexti. Við þurfum því að nýta góðu árin til að búa í haginn fyrir þau mögru. Þess vegna eru tillögur um breytingar á fjármálaáætlun, sem meiri hluti fjárlaganefndar gerði fyrir helgi, skrýtnar og jafnvel hættulegar. Tillögur nefndarinnar skilja eftir gat í ríkisrekstrinum. Þar er 8 milljörðum í tekjur ýtt út af borðinu árið 2018 og 17 milljarða risagat verður til ársins 2019. Engum orðum er eytt í að útskýra hvernig afla eigi nýrra tekna í staðinn eða hvar eigi að skera niður. Þetta er ekki ábyrg hagstjórn. Þessar æfingar draga úr trúverðugleika á efnahagslífinu. Þær auka óvissu, kalla á hærri vexti og magna upp gengissveiflur. Ríkisstjórnin leggur ofuráherslu í orði á að dempa sveiflurnar og ná stöðugleika en á borði liggja nú fyrir breytingartillögur sem stefna í allt aðra átt.

Ríkisstjórnarflokkarnir ráða ekki með þessari áætlun við að fjármagna almannaþjónustuna jafnvel þó að framlög til spítala, skóla og samgöngumála séu allt of lág og þyrftu að vera hærri. Vinnubrögð ríkisstjórnarflokkanna bera ekki vott um festu og stöðugleika. Í stefnumótun sinni býr hún til meiri óvissu en hún eyðir. Meiri hluti fjárlaganefndar teflir líka fram leiðum til tekjuöflunar sem helst hefur verið að finna lengst til hægri í íslenskum stjórnmálum. Einkavæða skal Keflavíkurflugvöll eða hluta hans, þann hluta sem mestum arði skilar. Horft er fram hjá ábyrgðarleysi sem felst í því að fjármagna hallarekstur með einskiptisaðgerðum. Í miðri uppsveiflunni eru helstu svör ríkisstjórnarinnar að einkavæða og fara í frekari skattalækkanir með lækkun efra þreps virðisaukaskattsins árið 2019. Þessari forgangsröðun erum við í Samfylkingunni algjörlega ósammála. Nú er nefnilega rétti tíminn til að styrkja tekjuöflun hins opinbera og styrkja svelta innviði, ekki að fara í skattalækkanir sem auka á einkaneyslu og ekki að einkavæða í nafni frjálshyggjunnar. Við megum ekki láta frá okkur styrkar stoðir hins opinbera í blindri trú, hvorki Keflavíkurflugvöll né Fjölbrautaskólann í Ármúla. Þetta eru mikilvægar stofnanir og það er furðulegt að horfa upp á ráðherra ríkisstjórnarinnar reyna að koma þessum stofnunum úr höndum ríkisins í flýti án þess að hafa neinn áhuga á því að ræða um afleiðingarnar af því né leggja fram fagleg rök sem styðja málið. Verkefni okkar er að styrkja opinbera reksturinn, spítalana, heilsugæsluna, skólana og samgöngukerfið. Við getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð og vísað henni á hendur einkaaðila.

Að ríkisstjórnin veiki tekjustofna ríkisins í miðri uppsveiflu er óábyrg efnahagsstjórn. Verið er að endurtaka mistök sem gerð voru í síðustu uppsveiflu og halda áfram að reka sömu hægri sinnuðu skattstefnuna sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráku á síðasta kjörtímabili sem er ávísun á aukinn ójöfnuð í landinu.

Þriðja stoðin snýst svo um ábyrgt vinnumarkaðsmódel með raunhæfum kjarasamningum sem tryggja jafna og stöðuga kaupmáttaraukningu í takt við það svigrúm sem er til staðar í efnahagslífinu hverju sinni. Þessi stoð hvílir líka á því og byggir á því að hinar tvær fyrrnefndu séu sterkar. Það veldur því áhyggjum að ríkisstjórnin vegi nú að báðum fyrrnefndu stoðunum í fjármálaáætluninni og kyndi þannig undir ófrið á vinnumarkaði. Það hefði til dæmis, svo að lítið dæmi sé nefnt, ekki verið til of mikils mælst að í fjármálaáætlun væri dregið upp með skýrum hætti hvernig ríkisstjórnin hygðist efna þau loforð sem gefin voru með samningi í aðdraganda laga um breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Í samkomulaginu, sem undirritað var þann 19. september síðastliðinn, milli ríkis og sveitarfélags annars vegar en stærstu opinberu stéttarfélaganna hins vegar, segir undir liðnum markmið og forsendur, með leyfi forseta:

„Unnið verði markvisst að því að jafna kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði eins og kostur er.“

Þarna kemur í raun skýr viðurkenning á því að bæta þarf kjör starfsmanna á opinberum markaði, ekki síst hjá fjölmennum kvennastéttum þar sem krafist er langrar menntunar, hjá stéttum sem munu gegna mjög mikilvægu hlutverki í framtíðinni. Umönnunarstörf, störf á sviði kennslu og vísindastörf verða lykilstörf eigi okkur að takast sómasamlega upp til að bregðast við nýjum veruleika, tækni, tölvu- og sjálfvæðingar.

Í ræðu og nefndaráliti Oddnýjar Harðardóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, er farið vel yfir verkefnin sem bíða. Þau eru stór en við getum skapað þetta svigrúm. Til þess þurfa stjórnvöld þó að hafa hugrekki og getu til að afla tekna og tryggja að allir njóti ávaxta af uppganginum, ekki bara þeir sem best hafa það. Þeir sem mestan pening eiga og þeir sem hafa bestan aðgang að nýtingu auðlinda landsins munu annars verða ríkari og ríkari á meðan þeir sem verr standa sitja eftir.

Við þurfum í fyrsta lagi að búa til grunn að nýjum störfum. Það hefði til dæmis verið miklu gáfulegra að lækka tryggingagjald frekar en að lækka virðisaukaskatt eins og boðað hefur verið árið 2019, ef menn sjá á annað borð einhverja ástæðu til að lækka skatta á þessum tíma. Við þurfum ekki að fjölyrða um háskólann. Fram hefur komið að fjárveitingar eru miklu lægri en þyrfti að vera þar. Þar stöndum við nágrannaþjóðum langt að baki.

Í fyrri fjármálaáætlunum var líka lofað að sparnaður sem hlytist af styttingu framhaldsskóla héldist inni í framhaldsskólanum. Það hefur verið svikið í nýrri áætlun og jafnvel þó að örlítil aukning sé í krónutölum er sú upphæð hverfandi miðað við það sem hverfur út úr framhaldsskólakerfinu. Sterkt menntakerfi og öflug nýsköpun eru forsenda þess að við getum mætt þeim gríðarlegu breytingum sem ég nefndi hér áðan. Ef ríkisstjórnin þverskallast við að mæta þessum áskorunum mun framtíðin koma harkalega í bakið á okkur.

Hvað er það svo sem mætir ungu og hæfileikaríku fólki þegar það heldur út í lífið eftir skólagöngu? Gríðarlega dýr og ótryggur húsnæðismarkaður; þar verðum við einfaldlega að sýna miklu meiri metnað. Þetta er brýnt kjaramál og nauðsynlegt ef við ætlum að standast samjöfnuð við Norðurlöndin og hafa betur í þeirri samkeppni að halda þessu unga og dýrmæta fólki, sem getur valið heiminn allan að vettvangi, hér á landi.

Við þurfum sem sagt stórátak í uppbyggingu leigumarkaðar sem er ekki hagnaðardrifið. Við þurfum að byggja að minnsta kosti þúsund íbúðir á ári í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og sveitarfélög á næstu árum. Það er talsvert meira en gert er ráð fyrir í núverandi áætlun. Við erum auk þess að súpa seyðið af skemmdarverkum Framsóknar- og Sjálfstæðismanna á verkamannabústaðakerfinu. Við þurfum auðvitað að gera mun betur í vaxta- og barnabótum og beina stuðningnum þangað sem hann nýtist best. Við þurfum að greiða skuldsettu fólki vaxtabætur. Það er ekki síst það fólk sem annars flýr vaxtabyrðina sem krónan leggur á herðar okkur. Besta leiðin til að koma í veg fyrir að börn búi við skort og líði fyrir fátækt foreldra sinna er að efla útgreiðslu barnabóta. Barnabætur eru líka mikilvægar fyrir ungt fólk sem er með ágætistekjur, en það býr við mikinn kostnað þegar það stígur sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði og greiðir af námslánum og eignast börn, allt á sama tíma. Ofan á það bætist að fæðingarorlofið er of stutt og greiðslur eru of lágar.

Frú forseti. Við erum að tala um þann hóp sem mun draga vagninn fyrir okkur næstu áratugina. Íslenskt samfélag hefur einfaldlega ekki efni á því að nesta það með slíkum hætti út í lífið, fyrir utan hvað það er líka skammarlegt.

Í þessari umræðu hefur þingmönnum orðið tíðrætt um heilbrigðiskerfið, og eðlilega. Um fátt var talað meira en það í aðdraganda síðustu kosninga. Þangað vantar mikið fjármagn, sérstaklega í opinbera reksturinn. Þar nýtist líka peningurinn best. Það er fáránlegt að ausa peningum í einkarekstur þegar opinbera kerfið starfar ekki á fullum afköstum og er vanfjármagnað. Tækifærin liggja í því að auka skilvirkni í opinbera kerfinu, ekki auka einkavæðingu þrátt fyrir eilífan söng þar um.

Auðvitað þurfum við að lækka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Það er til skammar að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu vegna fjárhagsvandræða. Tölur sýna að sá hópur stækkar og langt um fram það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Þá þarf auðvitað að fella geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu þarna undir. Annað er bæði hugsanaskekkja og tímaskekkja.

Þá liggur fyrir að við þurfum að byggja fleiri hjúkrunarheimili. Við getum ekki haldið áfram að velta vandanum sem hlýst af sinnuleysi ríkisins á málaflokknum yfir á Landspítalann eða sveitarfélögin. Hvað varðar sveitarfélögin þá vantar nú þegar marga milljarða inn í það að sá rekstur geti borið sig. Af því að aðkoma sveitarfélaga að hjúkrunarheimilum er með afar ólíkum hætti þá er það gríðarlega ósanngjarnt að ríkið standi ekki við sinn hlut. Sum þeirra eru nú þegar að borga mjög mikið með rekstrinum og þurfa á móti að skera niður í lögbundinni þjónustu, í íþrótta-, tómstundamálum eða öðru. Við þetta skerðist einfaldlega samkeppnishæfni þeirra sem þau þurfa svo mikið á að halda.

Að lokum þarf að hlúa vel að öldruðum og öryrkjum. Við þurfum að draga úr tekjuskerðingu og flýta innleiðingu kjarabóta fyrir öryrkja.

Ég hvet alla þingmenn og þá sem yfir höfuð láta sig stjórnmál varða til að kynna sér breytingartillögur Samfylkingarinnar sem eru í þeim anda sem hér var lýst. Til að hægt sé að ráðast í þessi mikilvægu verkefni þurfum við nefnilega að afla tekna og við getum það.

Í fyrri umræðu fjármálaáætlunar komu allnokkrir þingmenn og töluðu um gildi nýrra vinnubragða, sögðu meðal annars að hér ættu sér stað tímamót í þingsögu á Alþingi, að almenn pólitísk stefnumótun myndi nú hefja innreið sína með nýju vinnulagi. Ég get tekið undir mikilvægi stefnufestu og langtímasjónarmiða í fjármálum, en til þess þurfum við líka að taka umræðuna á breiðari nótum og ræða alla þætti málsins. Því að á endanum snýst þetta um venjulegt fólk af holdi og blóði og umræðan þarf að snúast um hvers konar samfélag við ætlum að byggja. Ég vil samfélag þar sem allir eru þátttakendur og hverjum og einum er fengið hlutverk við hæfi; að menn leggi af mörkum eftir getu og enginn sé skilinn út undan. Við stöndum nefnilega að einhverju leyti á hnífsegg. Við getum fallið hvorum megin hryggjar sem er. Sífellt fleiri raka til sín stærri hlutföll af auðnum og peningar eru að verða stærra og stærra vald í hinu daglega lífi, líka í pólitíkinni. Þó að það kunni að hljóma dramatískt þurfum við einfaldlega að verja hið virka lýðræði fólksins fyrir peningaöflunum. Það gerum við einfaldlega best með því að skipta gæðunum jafnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra Þorsteinn Víglundsson hefur í ræðu komið ágætlega inn á afleiðingar óstöðugs efnahagslífs. Hann sagði eitthvað á þá leið að í hruninu hafi þeir veikustu tapað mest. Ef hér yrði ekki stöðug hagstjórn myndu þeir veikustu tapa aftur. Samt ætla menn að fá samþykkta fjármálaáætlun og fjármálastefnu með útgjaldareglu sem krefst þess að forsendan fyrir svigrúmi til að takast á við uppbyggingu í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og innviðum byggist á því að efnahagslífið bólgni stöðugt út. En við vitum, frú forseti, að þannig eru hlutirnir ekki. Hér eru uppsveiflur, svo förum við niður í dekkri dali þess á milli. Þessi regla mun gera að verkum að við slíkar aðstæður herðir að, þá þrengist í snörunni og þá hafa menn ekkert svigrúm. Hvar munu menn þá bera niður? Hvar verður þá hoggið? Hvaða vopn hafa menn þá í búrinu sínu? Það er niðurskurðarhnífurinn sem mun bitna á heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarkerfinu, húsnæðismálum og yfir höfuð á þeim sem verst standa.

Frú forseti. Ég á enn eftir talsverðan hluta af ræðu minni og ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.