146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðuna. Ég hefði áhuga á að spyrja hann út í eitt atriði. Í kosningabaráttunni síðast lagði flokkur þingmannsins mjög mikla áherslu á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og kynnti ákveðin áform um það hvernig hægt væri að komast þangað í skrefum. Ég hefði áhuga á að heyra aðeins meira frá þingmanninum um það hvernig hann hefði þá viljað sjá þessa fjármálaáætlun öðruvísi til að hægt væri að stíga skrefin í átt að því sem hv. þingmaður talaði fyrir, sem var gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta. Einnig væri áhugavert að heyra aðeins meira frá þingmanninum um annað atriði, sem maður hefur séð, þ.e. að þegar þjónusta hefur verið alveg gjaldfrjáls umgöngumst við hana ekki af þeirri virðingu sem þau verðmæti sem við erum að fá þá. Hvernig hefur flokkur þingmannsins séð fyrir sér að hægt væri að tryggja að ekki væri verið að senda sjúklinga í óþarfaaðgerðir eða meðferðir eins og við höfum séð í dýrasta og væntanlega einu versta heilbrigðiskerfinu sem er í Bandaríkjunum?