146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:22]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við hefðum lagt fram gjörólíka fjármálaáætlun. Reyndar var það þannig að Samfylkingin og Vinstri græn gerðu sína eigin ríkisfjármálaáætlun, hvor í sínu lagi fyrir kosningar. Þar var lagt upp með það að afla tekna fyrir loforðunum. Við þær óstöðugu efnahagsaðstæður sem við búum nú við höfum við tvo möguleika, þ.e. annaðhvort að draga úr umsvifum eða að hækka skatta til að ná í tekjur. Við lögðum fram plön um hvernig við gætum í þrepum fikrað okkur yfir að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Það getur vel verið að einhver segi að maður hætti að bera virðingu fyrir hlutunum ef maður þurfi ekki að borga fyrir þá, en þá bið ég þann sama að segja það við barnafjölskyldur og fátækt fólk og gamalt fólk sem getur ekki farið til læknis.