146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég harma að hann sé ekki í sínum venjulega einkennisklæðnaði, það hefði verið gaman að skipta við hann hér á því að vera í pontu. Hann hefur kannski mínútu til að svipta sér úr. Ég þakka honum ræðuna sérstaklega því að ég var sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði og sú sýn sem hv. þingmaður boðaði var ekki ólík minni sýn á stjórnmálin.

Hér er talað mikið um skatta og fjármagnsmál og fleira slíkt í fjármálaáætlun og við höfum hlustað á hv. stjórnarliða tala um það, en mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem er í raun ákveðin skuld ríkissjóðs sem er innviðauppbyggingin, sem var boðuð af svo miklum móð fyrir síðustu kosningar en á svo ekki að fara í núna. Hvernig telur hv. þingmaður, sem er úr Norðausturkjördæmi, að það komi út t.d. í hans kjördæmi ef ekki verður farið í meiri uppbyggingu í heimakjördæmi hans en gert er ráð fyrir í (Forseti hringir.) núverandi fjármálaáætlun þvert ofan í það sem var lofað í kosningabaráttunni?