146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum með klæðaburði en ég held að starfsmönnum þingsins þyki þessi múndering skömminni skárri en þegar ég mæti í bolnum.

Í fjármálaáætluninni er talað um að sparnaður sé andstæða uppbyggingar. Það er ein af þeim vitlausu þverstæðum sem þar er að finna. Það felst nefnilega engin sparnaður í því að láta innviði grotna niður þannig að það verði á endanum eina leiðin að byggja þá upp frá grunni. Þetta kemur illa við mitt kjördæmi, þetta kemur illa við öll kjördæmi landsins, en fyrst og fremst er þetta í rauninni ekkert öðruvísi en að smygla sér inn í bíó. Þessu var lofað fyrir kosningar og svo er það svikið eftir þær.