146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið í máli sínu. Hér áðan talaði hann um hvernig ætti að fjármagna almannaþjónustuna. Það hef ég hef átt dálítið erfitt með að koma auga á í þessari fjármálaáætlun. Hvernig í ósköpum á að fjármagna þó það sem er sagst ætla að gera, að ég tali nú ekki um þegar hv. stjórnarliðar tala svo jafnvel utan þingsalar um allt sem á að fara að gera? Það er eins og það rími ekki endilega allt við fjármálaáætlunina. Það er eins og við eða hv. stjórnarmeirihluti hafi á einhvern hátt endurskilgreint hvað almannaþjónusta sé. Ég spyr hv. þingmann einfaldlega: Hvernig sér hann fyrir sér að almannaþjónustan verði með útgjaldaþaki, með þessum niðurskurði heilt yfir sem er ekki annað hægt en að tala um þó að í einhverjum krónum talið sé hægt að tala um að ein og ein tala (Forseti hringir.) fari upp? Erum við hér að horfa á hægri plagg sem endurskilgreinir almannaþjónustuna?