146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:39]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar setti ákveðin mál í forgang. Má þar nefna uppbyggingu trausts á grunnstoðum samfélagsins, m.a. með því að hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gegnsæja stjórnsýslu. Þá var einnig sett á dagskrá að setja heilbrigðismál í forgang og auka samkeppnishæfni atvinnulífs, auk þess sem áherslu skuli leggja á mannréttindi, umhverfismál og frelsi einstaklinga með jöfnun tækifæra og fjölbreytni.

Það er því ánægjuefni að sjá þau vinnubrögð sem við erum að taka hér upp með gerð fjármálastefnu sem samþykkt var í þinginu í apríl sl. og nú er komin fram fjármálaáætlun sem byggir á þeirri stefnu. Þannig tóku allar fastanefndir til við að greina þá málaflokka sem undir þær falla og gáfu áætluninni umsögn sína. Það álit sem hér gefur að líta er að mestu byggt á samantekt þeirra umsagna.

Vissulega eigum við enn svolítið langt í land með að móta verklag við gerð þessarar áætlunar. Það ásamt þeim sérstöku aðstæðum sem uppi voru nú eftir áramótin, þegar við hlupum af stað eftir kosningar inn í seinni hluta þingvetrar með litlum undirbúningi, hefur sett svip sinn á það verklag. Þannig hefðu fastanefndir viljað hafa lengri tíma og betri tækifæri til að vinna álit sín og greina á eigin forsendum þær tillögur sem hér eru lagðar fram. Undir þeim kringumstæðum verðum við þó að telja að vel hafi tekist til og okkur hafi tekist að koma auga á hnökra, sem við munum laga, og tækifæri til að gera betur. Þannig munum við eiga ríkara samstarf við sveitarfélögin og í nefndarálitinu er hvatt til þess að landshlutasamtök sveitarfélaga taki hagstjórnarleg málefni til sérstakrar skoðunar og þrói jafnvel sameiginlega mælistikur sem geta gagnast okkur við hagstjórn hins opinbera. Þannig náum við árangri sameiginlega.

Í áætluninni kemur fram hækkun fjárframlaga á ýmsum málaflokkum sem setið hafa á hakanum í þrengingum undanfarinna ára og er nauðsyn að bæta verulega í núna. Hækkun á málefnasviði lyfja- og lækningavara eykst um tæp 54% á fimm ára tímabili áætlunarinnar, en það er hlutfallslega næstmesta hækkunin sem finnst í þessari áætlun. Eingöngu framlög í varasjóð ríkissjóðs og sértækar fjárráðstafanir njóta hlutfallslega meiri hækkunar og er það gert til að koma að mestu leyti í veg fyrir eftiráleiðréttingar með fjáraukalögum.

Verulegar hlutfallshækkanir koma einnig fram á framlögum til samgöngumála, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og hvað varðar örorku og málefni fatlaðra. Í fjárhæðum talið vega þyngst hækkanir fjárframlaga vegna örorku og fatlaðs fólks og því næst heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa og samgöngu- og fjarskiptamál.

Í álitinu er skorað á heilbrigðisráðherra að skoða kosti þess að setja á laggirnar sérstaka stjórn yfir starfsemi spítalans þannig að stjórnarfyrirkomulagið líkist meira rekstri fyrirtækis þar sem ekki er einungis gætt að efnahagslegum mælikvörðum heldur að þjónusta og gæði séu jafnframt tryggð. Í því samhengi er rétt að minna á að í McKinsey-skýrslunni, sem kom út sl. haust, var sérstök athugasemd um að kafa þurfi betur ofan í verkefnaskiptingu spítalans og skilgreina hana betur, auk þess sem þörf sé á virkari stjórnun á afköstum kerfisins og skýra þurfi betur forgangsverkefni Landspítala.

Nú er ég ekki sérfræðingur í rekstri spítala en mér finnst spennandi að skoða hvort hægt sé að koma á skilvirkari stjórnun á breiðari grundvelli en nú er á ábyrgð á framkvæmd og utanumhaldi á fjárhag spítalans svo að eitthvað sé nefnt. Til þess þarf að greina stöðuna, móta stefnu og setja mælanleg markmið. Leiðin sem verður farin að þeim markmiðum verður svo bara eins og hvert annað farartæki eða verkfæri.

Það er af mörgu að taka í þessu áliti en mig langar að staldra sérstaklega við tvö mál sem tengjast innbyrðis. Nú er það svo að ferðaþjónusta er orðin ein stærsta atvinnugrein landsins og ekkert lát virðist á vextinum. Stjórnvöldum hefur hins vegar ekki auðnast að móta stefnu í málaflokknum. Þar sjáum við ekki fyrir horn og við vitum ekki hvernig við ætlum að bregðast við örri fjölgun ferðamanna sem farin er að hafa gríðarleg áhrif á grunninnviði og lífsgæði okkar Íslendinga. Í álitinu kemur fram að mikilvægt sé að styrkja nú þegar yfirsýn yfir þróun atvinnugreinarinnar þar sem framboð flugsæta til og frá landinu hefur aukist mjög og um þá þróun þurfum við að fjalla sérstaklega og áhrif hennar á efnahagslíf og þróun ferðaþjónustunnar. Ég vil bæta því við hér að fjalla þarf sérstaklega um áhrif greinarinnar á daglegt líf okkar allra svo að ná megi utan um verkefnið og bæta þjónustu og upplifun ferðamanna án þess að það komi niður á okkar eigin lífsgæðum.

Til þess að það sé gert almennilega er sérstaklega mikilvægt að móta stefnu í svo stórum málaflokki í samráði við hagsmunaaðila. Við þurfum að byrja á því að ákveða hvaða niðurstöðu við viljum fá. Við þurfum að vita hvert við ætlum og hvers vegna. Markmiðin þurfa að vera algjörlega á hreinu og markmiðin þurfa að byggja á upplýsingum sem gera okkur kleift að sjá fyrir horn. Það er ekkert gagn að markmiðum sem þjóna ekki tilgangi með ferðalaginu. Það hvaða leið er farin og hvaða ákvarðanir eru teknar, um það hvernig best er að ná markmiðum, er svo tæki til þess en á ekki að vera markmið í sjálfu sér. Í álitinu kemur fram að breyting á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu á miðju starfsári, þegar flestir ferðamenn eru í landinu, sé ekki æskileg og leita þurfi leiða til að endurskoða þær áætlanir. Er þar eingöngu verið að fjalla um tímasetningu breytinganna. Sjálfri hefði mér fundist ástæða til að greina betur áhrif breytinganna á umsvif ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti, áhrif á byggðaþróun, áhrif á samspil ferðaþjónustunnar og annarra greina. Það skiptir líka miklu máli að leggja mat á áhrif af gengi krónunnar og ýmsar aðrar lykilstærðir.

Í álitinu segir líka að meiri hluti fjárlaganefndar telji ástæðu til að greina ítarlega kosti og galla þess að leggja komugjöld á farþegar til að flýta uppbyggingu á þeim innviðum atvinnugreinarinnar þar sem skórinn er farinn að kreppa. Það er hið besta mál en því tengt þarf einnig að fara fram stefnumörkun hvað varðar gjaldtöku á vegum til að tryggja að mynd komist á framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar samgöngumannvirkja ef stefnumörkun leiðir okkur til þeirrar niðurstöðu að sú leið verði farin. Og ég ítreka þá aftur að greining á stöðu ætti að leiða okkur yfir í stefnumótun og markmiðasetningu. Hvaða leiðir verða svo farnar á endanum er þá tæki, eins og áður segir, til að ná því markmiði.

Þá er það hitt málið sem ég vil leggja sérstaka áherslu á sem tengist ferðaþjónustuumræðunni sérstaklega. Í nefndaráliti fjárlaganefndar kemur fram að tímabært sé að opna þá umræðu að ríkið leiti leiða til að umbreyta því fjármagni sem bundið er í mannvirkjum í flugstöð í Keflavík og nota til átaks í endurbótum samgöngumannvirkja því að slík aðgerð væri tilfærsla á fjárfestingum í samgöngumannvirkjum.

Ég tel að við eigum enn langt í land með að verða fær um að taka ákvörðun um slíkt því að umræðan um það hefur ekki farið fram. En hér er innlegg frá mér og ég bind vonir við að við náum að fóta okkur vel í þeirri umræðu. Ég vil ekki endurtaka bankasöluna, Borgunarsöluna eða sölu á samfélagslega mikilvægum innviðum samfélagsins. Slíka ákvörðun þarf að undirbúa vandlega og það þarf að gera þannig að það standist skoðun. Hugmyndir um að taka bestu mjólkurkýrnar út úr rekstrarmódelinu í Keflavík, með því að selja hús suður í Keflavík til að afhenda einkaaðila, ganga þannig ekki upp í mínum huga. Rekstrarmódel flugvallarins er það sem við eigum að horfa á í heild sinni því að flugvöllur er ekki bara flugstöðvarbygging heldur flugbrautir og annars konar mannvirki sem mynda þá heild sem flugvöllurinn er. Við eigum líka eftir að setja okkur markmið um aðkomu einkaaðila að rekstri flugvallar hérlendis. Við þurfum að sjá fyrir horn. Það tengist líka framtíðarstefnumótun í ferðaþjónustu enda er Keflavíkurflugvöllur eitthvert mikilvægasta mannvirkið hvað það varðar.

Hvað ætlum við að fá út úr því að fá einkaaðila að rekstri Keflavíkurflugvallar? Erum við bara að losa peninga sem fara þá inn í ríkiskassann eða verða nýttir í annað? Hvernig ætlum við þá að fjármagna uppbyggingu í Keflavík til framtíðar ef við verðum búin að selja innviði sem gefa okkur tekjur til uppbyggingar? Eða er ætlunin að minnka áhættu sem fylgir uppbyggingunni? Í því felst sú áhætta. Fjármögnun á uppbyggingu flugvallarins er ekki og hefur ekki verið vandamál en það þarf tekjur til að standa undir slíkum fjárfestingum. Það stenst ekki kröfur um ábyrg vinnubrögð að gera nokkurn skapaðan hlut án þess að það fari fram í gegnum stefnumótun og upplýstar ákvarðanir um svo miklar breytingar verður að taka á grundvelli greiningar og upplýsinga sem styðja þá stefnu sem valin verður.

Það er hægt að fara þrjár meginleiðir við sölu á Keflavíkurflugvelli. Í fyrsta lagi er hægt að selja reksturinn í heilu lagi. Það gengur ekki að taka bara út verslunarrýmið. Flugbrautir verða þá að fylgja með og allur reksturinn sem við á þar sem rekstrarmódel vallarins gengur ekki upp ef búið verður að taka 40–50% af þeim tekjum sem verða til á vellinum með sölu á ýmiss konar varningi, þjónustu og vörum, tekjum sem nú eru nýttar til uppbyggingar. Í annan stað mætti hreinlega fara með félagið á markað og selja hluti í því til að laða að einkafjármagn. Ríkið ætti þó alltaf hlut að slíku félagi og um væri að ræða sameiginlegt verkefni hins opinbera og einkaaðila. Í þriðja lagi mætti hugsa sér að eignarhaldið sjálft væri áfram á hendi ríkisins en einkaaðilum leigt til langs tíma á einhverjum forsendum.

Vissulega er það svo að aðkoma einkaaðila að fjármögnun, rekstri og eignarhaldi fluginnviða víða í Evrópu hefur verið að aukast á undanförnum árum. Er sú þróun tilkomin vegna samspils efnahagsvandræða ríkja og væntinga um áframhaldandi langtímavöxt flugfarþega annars vegar en hins vegar vegna þess að leiðum opinberra aðila til fjármögnunar slíkra verkefna hefur fækkað, til að mynda vegna reglugerða frá Evrópusambandinu. Hagsmunir hins opinbera og einkageirans fara ágætlega saman þegar kemur að skilvirkum rekstri á grunnstoðum samgangna og flugvalla. Flugvellir eru almennt reknir á viðskiptalegum forsendum. Enn er það þó svo að meiri hluti evrópskra flugvalla er í opinberri eigu og rekinn undir hlutafélagaformi. Blandað eignarhald er þó algengara í Evrópu en utan álfunnar. Flugvellir sem eru í fullum einkarekstri eru einungis átta talsins. Einkarekstur er alls ekki óhugsandi á vellinum, sérstaklega þegar til kemur sérþekking og reynsla aðila sem geta gert hlutina betur en við sjálf og bæði aflað meiri tekna og veitt meiri þjónustu. En við verðum að sjá fyrir horn og vita hvert við erum að fara og þar verður að gæta að rekstrarmódeli vallarins. Það að taka út valda tekjumöguleika, eins og rætt hefur verið um, í þeirri þjónustu sem ekki er flugtengd, sem sagt í verslun og þjónustu, er líklegt til að valda því að allir möguleikar á því að fá einkaaðila að rekstri vallarins, eins og þróunin hefur verið hérlendis, er fyrir bí. Tekjur af flugtengdum rekstri og óflugtengdum verða að haldast í hendur til að rekstrarmódelið haldist heilt og sé vænlegt til að einkaaðilar vilji koma að því.

En á meðan við erum ekki búin að ákveða hvers vegna við viljum aðkomu einkaaðila er ekki hægt að ræða um framhaldið. Mér finnst líka ástæða til að ítreka og minna á að óheimilt er að færa fjármuni, sem verða til með rekstri Isavia í Keflavík, til annarra valla innan lands. Það er fjárveitingavald Alþingis sem ákveður með hvaða hætti uppbygging innanlandsflugs fer fram eins og annarra samgangna. Ef fimm manna stjórn Isavia ætti að taka ákvörðun um slíkt væri verið að færa fjárveitingavaldið frá þinginu og til fimm manna stjórnar úti í bæ. Það sér hver maður að slíkt gengur ekki upp. Ég vil minna á þetta hér því að uppbygging á flugvöllum annars staðar á landinu en í Keflavík þarf að eiga sér stað og þær ákvarðanir eru teknar hér á Alþingi en ekki annars staðar.

Samandregin niðurstaða mín er því sú að framhald þeirrar vinnu sem lýtur að þessum málaflokki þarf að hefjast á stefnumótun. Þannig mun okkur auðnast að taka utan um þau verkefni sem stjórnvöld hafa ekki sinnt sem skyldi undanfarin ár og skiptir þá engu máli hvar í flokki menn standa. Þessi verkefni má ekki tefja með deilum um keisarans skegg eða með því að slá pólitískar keilur. Nú verða þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn og aðrir flokkar að taka höndum saman til að niðurstaðan verði besta mögulega útkoma fyrir umbjóðendur okkar, fólkið sem byggir þetta land.