146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:55]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sló úr og í, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Það er vegna þess að við erum að hefja umræðuna og ég vil finna rök með og á móti þeirri hugmynd sem er verið að slá upp í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og mér finnst mikilvægt að við fótum okkur vel í þessari umræðu. Við höfum verið gagnrýnd og ég tek þeirri gagnrýni alvarlega. Ég var hugsi sjálf yfir því þegar hér kom fram hugmynd um sameiningu framhaldsskóla og þar var umræðan langt komin. Þess vegna erum við að leggja til að við hefjum þessa umræðu hér í þingsal, mér finnst það mikilvægt, en tilganginum með því er raunverulega ekki slegið fram í nefndarálitinu. Það er hugmynd um að draga fjármagn úr flugstöðvarbyggingunni og inn í aðrar samgöngur á Íslandi. Ef það er markmið eitt út af fyrir sig finnst mér það ekki beint góð hugmynd miðað við þau uppbyggingaráform sem eru fram undan á Keflavíkurflugvelli.