146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:00]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á spurningunni hjá hv. þingmanni; varðandi það hvernig ég sæi fyrir mér þetta út frá launaþróun í þessum málaflokkum, spítölum og menntamálum, er það ekki rétt hjá mér?

Um launaþróun, ég sé þetta bara allt fyrir mér þannig, a.m.k. hvað varðar heilbrigðismál, að stóru verkefnin eru auðvitað þau að byggja nýjan spítala, fjölga hjúkrunarrýmum og leysa þennan fráflæðisvanda, það eru stór og mikil verkefni í heilbrigðismálum, og auðvitað koma launamálin þar inn í. Hvernig ég sé þetta — væntanlega er hv. þingmaður að tala um næstu fjögur árin — þá bind ég bara vonir við það að við náum að móta heildstæða stefnu og klára þessi verkefni að mestu leyti, þótt ég sjái ekki alveg fyrir mér hvernig við leysum það að klára spítalann.