146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:04]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég studdi og styð tillögu ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskattinn, bara til að hafa það alveg á hreinu. Hins vegar tókum við tillit til þeirra umsagna sem komu í nefndina og það væri náttúrlega ekki til neins að fá gesti og fá umsagnir ef tækjum ekki tillit til þeirra. Við erum því að opna á þá umræðu. (LE: Eins og frá fjármálaráðuneytinu?) Afsakið, fyrir óreyndan þingmann eru frammíköll mjög óþægileg og taka svolítið frá mér athyglina. En ég vil bara leggja áherslu á að ég styð þessa tillögu. Ég hefði sjálf algjörlega stutt það að hækka virðisaukaskattinn 1. júlí, en þetta eru athugasemdir sem við tókum til greina frá gestum nefndarinnar.